Í dag þarf aðeins ein atvinnugrein sem nýtir auðlindir landsins að greiða sérstakt auðlindagjald. Fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa í dag að greiða 33% af hagnaði fiskveiða í veiðigjald og til stendur að hækka gjaldið enn frekar.
Í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Viðskiptablaðið var spurt um viðhorf almennings til greiðslu auðlindagjalda en spurningin var eftirfarandi: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem nýta náttúruauðlindir landsins greiði auðlindagjald?“
Tæplega 75% þátttakenda sögðust hlynntir því að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem nýta náttúruauðlindir landsins greiði auðlindagjald, þar af voru 36,7% frekar hlynntir og 37,8% mjög hlynntir. Aðeins 8,5% þátttakenda voru andvígir slíkri gjaldtöku, þar af 3,5% frekar andvígir og 5% mjög andvígir. Þá voru 17% hvorki hlynntir né andvígir.