Tesla hækkaði fyrr í þessum mánuði verð rafbíla sinna hér á landi í þriðja sinn síðan bílaframeiðandinn opnaði útibú hér á landi haustið 2019.
Hinn vinsæli Model 3 hækkaði um 300 þúsund og kostar nú 6 milljónir króna í grunnútfærslu samanborið við 5 milljónir árið 2019, og rétt tæpar 7 milljónir í fjórhjóladrifinni Long range útgáfu, sem var á sléttar 6 við opnun og tæpar 6,5 fyrir síðustu hækkun og hækkuðu því um 7,6%.
Rúmbetri og veghærri útgáfa hans sem mætti á klakann síðasta haust og aðeins fæst í Long range útgáfu, Model Y, var einnig hækkuð, um 377 þúsund krónur, úr 7,5 milljónum í 7,9. Við þessi verð bætist svo 133 þúsund króna afhendingagjald og virðisaukaskattur af því sem er umfram frítekjumark rafbíla.
Tesla hefur hækkað verð í fleiri löndum nýverið, meðal annars Kína og Bandaríkjunum, vegna hækkandi aðfangaverðs og flutningskostnaðar.