Festi gjaldfærði 76 milljónir í kostnað vegna starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar, sem gegndi stöðu forstjóra félagsins og forvera þess frá árinu 2015, á öðrum fjórðungi. Þetta kom fram í uppgjöri sem félagið birti í gær. Til samanburðar þá var Eggert Þór með 50,5 milljónir króna í laun á síðasta ári samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins.
Tilkynnt var um starfslok Eggerts Þórs í byrjun júní. Stjórn Festi sagðist byggja ákvörðun sína á að félagið „standi nú á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar. Þessi tímamót, á sama tíma og samkeppni er að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blasa við, kalla á nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin.“
Sjá einnig: Hagnaður Festi eykst um 28%
Guðjón Reynisson stjórnarformaður sagði á hluthafafundi fyrir tveimur vikum að ákvörðun stjórnar að láta Eggert Þór fara hafi verið einróma. „Okkar mat er að fyrir nýjan og spennandi kafla fyrirtækisins þurfi nýjan leiðtoga fyrir félagið, með styrkleika á þeim sviðum sem nú mun reyna á.“
Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, þurfi nú að marka stefnu til næstu fimm ára og skoða hvort bæta eigi við fjórðu stoðinni undir rekstur félagsins.