Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum þarfnast Strætó eins og hálfs milljarðs króna framlags frá eigendum sínum, sem eru sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, til að mæta rekstrarvanda og bágri fjárhagsstöðu félagsins.

Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Strætó, en borgin á 60,3% hlut í félaginu. Kópavogsbær á 14,6% hlut, Hafnarfjarðarbær 12,5%, Garðabær 6,24%, Mosfellsbær 4,07% og loks á Seltjarnarnesbær 2,29% hlut. Ef sveitarfélögin fallast á að leggja Strætó til einn og hálfan milljarð króna þarf Reykjavíkurborg því að punga út 904,5 milljónum króna. Kópavogur þyrfti að leggja fram 219 milljónir króna, Hafnarfjarðarbær 187,5 milljónir, Garðabær 93,6 milljónir, Mosfellsbær 61,1 milljón og Seltjarnarnesbær 34,4 milljónir.

Á ári hverju fær Strætó fjárframlag frá eigendum sínum, auk þess sem félagið hefur frá árinu 2012 fengið árlegt framlag úr ríkissjóði. Byggir það á samstarfssamningi sem undirritaður var í maí sama ár. Eitt af meginmarkmiðum samningsins var að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í ársreikningi Strætó árið 2013 kemur fram að akstur hafi aukist um tæp 30% frá því að samningurinn tók gildi. Þá var framlaginu einnig ætlað að stuðla að endurnýjun vagnaflotans. Loks var framlaginu ætlað að koma á móti niðurfellingu á endurgreiðslu á olíugjaldi. Frá árinu 2002 nema samanlögð framlög sveitarfélaganna til Strætó nærri 70 milljörðum króna ef miðað er við verðlag í lok síðasta árs.

Frá árinu 2012 hefur félagið svo fengið hátt í 9,5 milljarða króna í framlög frá ríkissjóði. Samanlagt framlag er því rétt rúmlega 79 milljarðar króna á tímabilinu.

© vb.is (vb.is)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.