Eignarhaldsfélögin Sex álnir og 12 Fet, sem stofnuð voru utan um eignarhluti í Eyri Invest til að styðja við samruna JBT og Marel, högnuðust samtals um tæplega 8,4 milljarða króna á síðasta ári, í gegnum gengismun á hlut í Eyri Invest. Hagnaður Sex álna nam rúmum 5,1 milljarði og 12 Feta um 3,2 milljörðum.

Eyrir Invest hagnaðist um 26 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 11,7 milljarða tap árið áður og 79 milljarða tap árið 2022. Viðsnúningurinn stafaði aðallega af mismun á gengi Marels í upphafi árs og virði endurgjalds fyrir hlutabréfin í Marel miðað við lok árs.

Í lok árs 2023 námu vaxtaberandi skuldir Eyris Invest 51 milljarði króna og höfðu aukist um 11 milljarða á þremur árum. Þá lækkaði eigið fé félagsins um nærri 100 milljarða á tveimur árum og stóð í 41 milljarði í lok árs 2023, miðað við hápunkt í gengisþróun á Marel og þróun á innra virði Eyris.

Þess má geta að til lengri tíma hefur hlutabréfaverð Marels skilað hærri ávöxtun en helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta endurspeglast í jákvæðri þróun á innra virði Eyris á tímabilinu, en útboðsgengi í Eyri var t.a.m. 26 árið 2012 samanborið við innra virði Eyris upp á 72 nú um áramótin.

Velta með bréf JBTM fjórföld veltu íslenska markaðarins

Eyrir Invest átti 24,7% eignarhlut í Marel hf. í upphafi árs 2024. Valkvætt yfirtökutilboð JBT í öll hlutabréf í Marel tók gildi í júní 2024 og í desember sama ár var tilkynnt um samþykki hluthafa Marels á tilboðinu. Þar með voru öll skilyrði tilboðsins uppfyllt. Í ársbyrjun 2025 fékk Eyrir Invest hf. eignarhluti sína í Marel greidda með hlutum í JBT Marel og reiðufé í hlutföllunum 65%/35%. Eyrir Invest hf. gerði í kjölfar viðskiptanna upp allar skuldbindingar við lánveitendur og er félagið því skuldlaust í dag.

JBT Marel er með hlutabréf sín skráð í kauphöllinni í New York, og er markaðsvirði sameinaðs félags yfir 6 milljörðum dollara. Velta með bréf félagsins á markaði er um 12 milljarðar á dag, eða sem nemur fjórfaldri veltu á íslenskum markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.