Aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga voru kynntar í Safnahúsinu nú á sjöunda tímanum. Samtök atvinnulífsins og Efling, SGS og Samiðn skrifuðu undir svokallaða Stöðugleikasamninga á sjötta tímanum í dag en samningurinn nær til ársins 2028.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því að umfang aðgerða stjórnvalda nemi allt að 80 milljörðum króna á samningstímanum. Sérstök áhersla væri lögð á aukinn stuðning fjölskyldufólk og aðgerðir á húsnæðismarkaði. Aðgerðirnar myndu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna um allt að 500 þúsund krónur á ári.
Gjaldskrár ríkis munu almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025 og sveitarfélögin hafa lýst yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira.
Barnabætur hækka og skólamáltíðir verða gjaldfrjálsar
Umfang aðgerða til stuðnings fjölskyldufólks nemur um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða króna á samningstímanum en barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum. Það muni fjölga foreldrum sem fá stuðning um 10 þúsund. Í heildina munu framlög til barnabóta hækka um 3 milljarða króna á þessu ári og um 2 milljarða króna á árinu 2025 og verða þá orðin um 21 milljarður króna á ári.
Þá verða skólamáltíðir grunnskólabarna gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 og til loka samningstímans. Áætlaður kostnaður er um fimm milljarðar króna á ári en ríkið og sveitarfélög munu útfæra verkefnið í sameiningu fyrir lok maí 2024.
Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækka í þremur áföngum á næstu tveimur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. Þá munu aðilar vinna að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leiksskóla.
Einnig verður gripið til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun og unnið að virðismatskerfi sem byggir á tillögum aðgerðarhóps, og dregið verður úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð með því að tryggja fjórar niðurgreiddar ferðir af sjúkratryggingum á ári.
Hámarksábyrgð úr ábyrgðarsjóði launa hækkar í þremur skrefum - úr 633 þúsund krónur í 970 þúsund -, framlög til Vinnustaðanámssjóðs verða aukin um 150 milljónir á ári, og að lokum verða umbætur gerðar á Menntasjóði námsmanna til að létta vaxtabyrði og draga úr ófyrirséðum hækkunum, auk þess sem veiting námsstyrkja nær til þverfaglegs náms og stefnt er á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána.
Sérstakur vaxtastuðningur og húsnæðisbætur hækka
Aðgerðir til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði nema sömuleiðis um 50 milljörðum króna á samningstímanum. Stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum. Sveitarfélögin munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf.
Þá verða greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán á árinu 2024 en ekki er gert ráð fyrir frekari aðgerðum 2025 þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna.
Húsnæðisbætur verða hækkaðar frá fyrsta júní næstkomandi til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar. Kostnaður vegna þessa eru um 2,5 milljarðar króna á ársgrundvelli.
Unnið að sameiginlegu markmiði
Að því er segir í tilkyningu styðja aðgerðirnar við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.
Aðgerðunum veerður fogangsraðað sérstaklega í komandi fjámálaáætlun fyrir árin 2025-2029 til að tryggja að ríkisfjármálin stuðji við markmið samningsaðila um verðstöðugleika og lækkun vaxta.
Á fundinum voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra, og Heiða Björk Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fyrir blaðamannafundinn hafði komið fram að það sem helst hefði staðið út af, samkvæmt yfirlýsingum verkalýðshreyfingarinnar í fjölmiðlum, væri að sveitarfélög dragi gjaldskrárhækkanir til baka og að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar.
Launabreytingarnar sem samið er um í Stöðugleikasamningnum hljóða upp á 3,25% árið 2024 en 3,5% árlega frá 2025 til 2027. Þá mun lágmarkshækkun launa nema 23.750 krónum á ári. Einnig er kveðið á um svokallaðan framleiðniauka og kauptaxtaauka í samningnum.
Fréttin hefur verið uppfærð með frekari upplýsingum úr aðgerðarpakka stjórnvalda.