Nú er aðalfundarhrina skráðra félaga í Kauphöllinni þar sem hvert félagið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs. Samanlagðar arðgreiðslur sem stjórnir félaga á aðalmarkaði hafa lagt til það sem af er ári nema rúmlega 80 milljörðum króna.
Til samanburðar námu samanlagðar arðgreiðslur félaga á aðalmarkaði rúmlega 51 milljarði króna á árinu 2024 vegna ársins 2023, og 68,9 milljörðum króna á árinu 2023 vegna ársins 2022.
Þrjú félög eiga eftir að skila inn uppgjöri vegna ársins 2024 og þar með tilkynna um arðgreiðslur á árinu. Ísfélagið skilar inn ársuppgjöri í næstu viku, þann 27. mars. Ölgerðin skilar síðan inn uppgjöri 10. apríl og Hagar 15. apríl.
Hagar greiddu 2,5 milljarða króna í arð til hluthafa á árinu 2024 vegna rekstrarársins 2023. Hjá Ölgerðinni nam upphæðin 1,4 milljörðum króna og hjá Ísfélaginu var 2,1 milljarður króna greiddur til hluthafa vegna ársins 2023.
Ef gert er ráð fyrir því að félögin þrjú greiði sambærilegar fjárhæðir til hluthafa á þessu ári má reikna með að heildararðgreiðslur skráðra félaga á aðalmarkaði verði nær 90 milljarðar króna á þessu ári. Það er nærri tvöfalt meira en árið áður.
50 milljarðar til hluthafa bankanna
Á þessu ári munu Arion banki og Íslandsbanki greiða samtals um 28 milljarða króna í arð til hluthafa.
Þar af samþykkti stjórn Arion banka á aðalfundi í síðustu viku að greiddir yrðu út 16 milljarðar króna til hluthafa bankans, eða sem nemur 11,5 krónum á hlut. Þá hefur stjórn Íslandsbanka lagt til við aðalfund bankans, sem haldinn verður í lok mars, að greiddur verði 12,1 milljarður króna í arð, eða sem nemur 6,43 krónum á hlut.
Stjórn Kviku lagði til að greiddur yrði 2,1 milljarðs króna arður til hluthafa, sem nemur 0,44 krónum á hlut. Nemur arðgreiðslan 25% af hagnaði samstæðu Kviku eftir skatta sem er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Enn fremur hefur bankinn tilkynnt að 20 milljarðar króna verði greiddir til hluthafa í kjölfar viðtöku á söluverði TM. Því hyggst Kvika greiða rúmlega 22 milljarða króna til hluthafa á árinu vegna rekstrarársins 2024.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.