Icelandair flutti 251 þúsund farþega í febrúar 2025, 7% fleiri en á sama tíma í fyrra en flugframboð jókst um 8%. Sætanýting var 79,8% og hefur aldrei verið betri í febrúarmánuði eða 79,8%, því er segir í tilkynningu flugfélagsins til Kauphallarinnar. Stundvísi nam 80,5%.

Af farþegum Icelandair í febrúar voru 40% farþega á leið til Íslands, 20% frá Íslandi, 33% ferðuðust um Ísland og 7% innan Íslands.

Tekjur á hvern seldan sætiskílómetra (yield) námu 8,0 bandarískum sentum og lækkuðu samanborið við febrúar á síðasta ári. Félagið segir betri sætanýting hafa hins vegar vegið upp á móti þessari lækkun, sem skilaði sér í svipuðum farþegaeiningatekjum og í fyrra.

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 27% fleiri en í febrúar í fyrra en fraktflutningar drógust saman um 10%.

Mynd tekin úr tilkynningu Icelandair.

Tóku við annarri Airbus þotu í síðustu viku

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir jákvæða þróun í farþegatölunum endurspegla mikið traust viðskiptavina til Icelandair og virði þjónustu félagsins. Undirbúningur sé nú í fullum gangi fyrir sumarvertíðina.

Fram kemur að Icelandair hafi tekið á móti annarri Airbus flugvél í lok síðustu viku og gerir ráð fyrir því að taka á móti tveimur vélum til viðbótar á næstu mánuðum.

„Þá hófum við farmiðasölu með nýjasta samstarfsfélagi okkar, Southwest Airlines. Samstarfið opnar nýja og betri tengimöguleika fyrir farþega við fjölda markaða í Norður-Ameríku, fyrst um sinn í gegnum Baltimore flugvöll. Nú þegar höfum við fengið bókanir frá 43 flugvöllum í Bandaríkjunum,“ segir Bogi.