„Síðasta ár var merkilegt ár, EVE Online fagnaði 20 ára afmæli og var því fagnað með 3.000 manns í Laugardalshöll í september,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.

Viðsnúningur var á rekstri tölvuleikjaframleiðandans, sem skilaði hagnaði eftir taprekstur síðustu tvö ár.

„Vöxtur var á árinu fyrir EVE Online og við hófum prufuútgáfur af skotleiknum EVE Vanguard, farsímaleiknum EVE Galaxy Conquest og lokuðum prófunum á Project Awakening undir lok ársins.“

Síðar í mánuðinum fer síðan í loftið stór prufuútgáfa af Project Awakening sem mun standa yfir í sex vikur. Fyrstu upplýsingar um verkefnið, sem CCP tryggði 40 milljóna dala fjármögnun fyrir í fyrra, voru opinberaðar í mars.

Í júní kemur út svokölluð Equinox viðbót við EVE Online auk þess sem stór uppfærsla á prufuútgáfu EVE Vanguard er væntanleg. Þá er áætlað að prófunarferli fyrir EVE Galaxy Conquest klárist undir lok árs og verður leikurinn þá spilanlegur fyrir alla síma á
öllum svæðum.

Fyrr í vikunni var 21 ár frá því að EVE Online fór fyrst í loftið og sagði Hilmar Veigar, sem hefur leitt fyrirtækið frá árinu 2004, við það tilefni að fram undan væru bestu ár CCP.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.