Flugfélagið Play flutti 91.940 farþega í október og sætanýting var 81,9% samborið við 81,5% í september. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins. Um 35% voru farþegar á leið frá Íslandi, 28,5% voru farþegar á leið til Íslands og 36,3% voru tengifarþegar. Stundvísi Play í október var 95,4%.

„Almenn eftirspurn frá farþegum til Íslands hefur verið minni en búast mátti við á síðustu mánuðum þar sem mörg hótel voru uppbókuð og sömuleiðis bílaleigubílar. Afleiðing þess var aukinn fjöldi tengifarþega í stað farþega til Íslands, sem skila minni tekjum,“ segir í tilkynningu félagsins.

Play sér þó fram á aukna eftirspurn á næstu misserum meðal farþegar á leið til landsins

„Nú horfir hins vegar til framfara og PLAY sér aukna eftirspurn meðal farþega á leið til landsins á næstu mánuðum enda hefur íslensk ferðaþjónusta talsvert meira svigrúm til að taka við farþegum. Inneignum ferðamanna hjá öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem fengust höfðu í faraldrinum og nýttar voru í miklum mæli á þessu ári, hefur fækkað til muna. Ferðamálastofa spáir um 40% fleiri farþegum til landsins árið 2023 miðað við 2022 og PLAY sér ört vaxandi bókunarflæði til landsins inn í veturinn og næsta ár.“

Play kynnti tvo nýja áfangastaði í dag, en félagið hefur hafið miðasölu í flugferðir til Stokkhólms í Svíþjóð og Hamborgar í Þýskalandi. Þar með eru áfangastaðir Play orðnir 28 talsins.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist í tilkynningu líta á það sem afrek að félagið hafi náð rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi við þær ytri aðstæður sem félagið starfaði við.

„Meirihluti áfangastaða okkar var glærnýr í leiðakerfinu og vörumerki PLAY því að mestu óþekkt á mörkuðum. Sætanýtingin á Q3 var 85% sem er mjög ásættanlegt og við búumst við góðri sætanýtingu næstu mánuði. Það er líka mjög jákvætt að við erum þegar farin að sjá aukningu á farþegum til Íslands á næstu mánuðum. Okkar magnaði hópur starfsmanna er kominn á fullt við undirbúning þess að færa enn út kvíarnar. Við erum að ráða fólk, fjórar flugvélar eru á leið til okkar og áfangastaðir eru að bætast við. Ég horfi spenntur til framtíðar því PLAY er að verða sterkt og arðbært  lággjaldaflugfélag með vaxandi tekjugrunn og ánægða viðskiptavini."