Félagsmenn VR samþykktu nýgerða kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins (SA) og Félag atvinnurekenda (FA).
Atkvæðagreiðslan hófst 14. desember og lauk í hádeginu í dag. Um 81,9% atkvæða voru greidd með samningi VR við SA, en já sögðu 7.808 og nei sögðu 1.504 eða 15,78%. Þau sem tóku ekki afstöðu voru 220 eða 2,31%. Á kjörskrá um samning VR og SA voru 39.115 VR félagar og greiddu 9.532 atkvæði, og var kjörsókn því 24,37%.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði við RÚV að um væri að ræða sögulega mikla kjörsókn.
Kjarasamningur VR við FA var samþykktur með 85,17% atkvæða, en já sögðu 247 VR félagar og nei 38, eða 13,10%. Þau sem tóku ekki afstöðu voru 5 eða 1,72%. Á kjörskrá um samning VR og FA voru 939 VR félagar og greiddu 290 atkvæði, og var kjörsókn því 30,88%.
Félagar Rafiðnaðarsambandsins samþykktu einnig kjarasamninga. Um 68% sveina greiddu atkvæði með samningunum, 73% tæknifólks og 88% félaga Grafíu.
Fréttin var uppfærð eftir að VR og RSÍ sendu frá sér tilkynningu.