Járnbrautarlestafyrirtækið Union Pacific hefur komist að samkomulagi um yfirtöku á lestafyrirtækinu Norfolk Southern í 85 milljarða dala viðskiptum, en fyrirtækin eru meðal þeirra stærstu í fraktflutningum í Bandaríkjunum.

Að því er segir í frétt New York Times yrði sameinað félag það fyrsta til að starfrækja járnbrautarlestakerfi sem fer þvert yfir meginland Bandaríkjanna. Lestakerfið myndi spanna um 80 þúsund kílómetra og fara í gegnum 43 ríki en ríflega 50 þúsund manns myndu starfa hjá sameinuðu félagi.

Vonir eru bundnar við að samruninn gangi í gegn á fyrri hluta árs 2027 en eftirlitsaðilar eiga eftir að samþykkja samrunann. Munu þeir taka til skoðunar hvort samruninn grafi undan samkeppni á markaðnum, en Union Pacific og Norfolk Southern sáu um 43% allra vöruflutninga með járnbrautum í Bandaríkjunum árið 2024.

Önnur stór fyrirtæki á markaðnum eru CSX og BNSF en ef þau myndu einnig sameinast, sem fyrirtækin eru sögð skoða, yrðu um 90% allra vöruflutninga með járnbrautum í Bandaríkjunum í höndum tveggja fyrirtækja.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.