Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) á hinum almenna vinnumarkaði liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 17 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 9. til 19. desember og í heildina var kjörsókn 16,56%. Um 85,7% greiddu atkvæði með samningnum en 11% greiddu atkvæði gegn honum. 3,29% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 23.711 manns.

„Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum, en í 15 af 17 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 80% atkvæða,“ segir í tilkynningu SGS.

SA og SGS náðu samkomulagi í byrjun mánaðarins um samning sem gildir til 31. janúar 2024. Samningurinn felur í sér 33 þúsund króna almenna launahækkun og 35 þúsund króna hækkun á grunntaxta. Auk þess var hagvaxtaraukanum flýtt.

Samningurinn telst nú samþykktur hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu aðildarfélaga SGS um nýja kjarasamninginn.