Eignarhaldsfélögin Sex álnir og 12 Fet, sem stofnuð voru utan um eignarhluti í Eyri Invest til að styðja við samruna JBT og Marel, högnuðust samtals um tæplega 8,4 milljarða króna á síðasta ári, í gegnum gengismun á hlut í Eyri Invest. Hagnaður Sex álna nam rúmum 5,1 milljarði og 12 Feta um 3,2 milljörðum.
Árni Oddur breytti nafni félags síns, sem hélt utan um eignarhlut í Eyri Invest, úr Árni Oddur Þórðarson ehf. í 3 stikur ehf., í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sem lauk um mitt ár 2024.
Félagið áframseldi eignarhlut sinn í Eyri til Sex álna og 12 Feta auk þess að endurheimta eignarhluti sem Arion banki hafði eignast. Varð 3 stikur stærsti hluthafi beggja félaga á móti tólf fjársterkum fjölskyldum með áratuga reynslu úr atvinnulífinu.
Meðal fjárfesta voru hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, Guðmundur Ásgeirsson, oft kenndur við Nesskip, Pétur Björnsson, meðal stofnenda Ísfells, útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir, fjárfestingafélag Kristjáns Loftssonar, félag í aðaleigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, auk félaga í eigu fjárfesta á borð við Októ Einarsson, Finn B. Harðarson og Birgi Örn Birgisson.
90-120% ávöxtun hluthafa
Þegar Árni Oddur fékk fjárfestana til liðs við sig varð ljóst að stjórn Eyris Invest studdi yfirtökutilboð JBT í Marel og sameiningu þeirra félaga. Tilgangur félaganna, Sex álna og 12 Feta, var að styðja við þá vegferð, og þegar sala á Marel næðist fram myndu aðrir hluthafar eiga kost á því að fá útgreiddan hagnað af sínum hlut í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi.
Ávöxtun hluthafa í Sex álnum sem var stofnað í janúar 2024 reiknast yfir 120% og hluthafa í 12 Fetum sem var stofnað um mitt ár um 90%.
Tveimur dögum fyrir aðalfund Eyris Invest, sem haldinn var 27. mars sl., fengu hluthafar í Sex álnum og 12 Fetum hlutabréf í Eyri í staðinn fyrir hluti í Sex álnum og 12 Fetum. Þar með varð Árni Oddur eini hluthafi Sex álna og 12 Feta, en áður átti hann samanlagt um þriðjungshlut í félögunum.
Á aðalfundi Eyris var í kjölfarið samþykkt einróma með öllum atkvæðum að lækka hlutafé um 812,7 milljónir króna að nafnverði og greiða hluthöfum í formi hlutafjár í JBT Marel og Fræ Capital, félagi utan um sprotastarfsemi Eyris.
Eftir hlutafjárlækkunina eru stofnendur Eyris einu hluthafar félagsins með jafnan eignarhlut, Þórður í eigin nafni og Árni Oddur í gegnum Sex álnir og 12 Fet sem eru nú að fullu í hans eigu. Þá á Eyrir Invest 0,55% hlut í JBT Marel samanborið við 6,5% fyrir lækkun hlutafjár.
Í kjölfar þessa eru félög Árna Odds: 3 stikur, Sex álnir og 12 Fet skuldlaus. Nöfn félaganna vísa til gamalla peningaeininga. Upphaflega var einn eyrir notaður til að endurspegla sex álnir vaðmáls. Þannig er einn eyrir, þrjár stikur, sex álnir og tólf fet allt sama ígildi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.