Stjórn HB Granda hf. samþykkti á fundi sínum í dag greinargerð um yfirtökutilboð Brims hf. í hluti félagsins. Niðurstaða greinargerðarinnar er sú að stjórnin telur ekki tilefni til að ætla að yfirtökutilboðið hafi neikvæð áhrif á hagsmuni félagsins, stjórnenda og starfsmanna félagsins eða starfsstöðva þess.

Í tilboðsyfirliti kemur fram að Brim hafi gert samkomulag við hluthafa sem eiga 90,05%, að meðtöldum eignarhlut Brims þar sem þeir staðfesta að þeir muni ekki ganga að yfirtökutilboðinu.

Einnig kemur fram í tilboðsyfirlitinu að Brim hafi ekki áætlanir um að breyta aðalstarfssemi HB Granda, starfsmannahaldi né starfsstöð. Ekki séu áform uppi um að skrá félagið úr kauphöllinni.

Það er vilji Brims að núverandi hluthafar verði áfram hluthafar í félaginu og félagið hefur ekki í hyggju að eignast meira en 50% hlut.