Leigufélagið Ívera, áður Heimstaden á Íslandi, tapaði 916 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 1,8 milljarða hagnað árið 2023. Munurinn skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru neikvæðar um 234 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við 3,4 milljarða hækkun á árinu 2023.

Þá kemur fram í nýbirtum ársreikningi Íveru að félagið hafi breytt um verðmatsaðferð í upphafi árs og noti nú núvirt sjóðstreymismat við verðmat á fjárfestingareignum.

Leigutekjur félagsins námu 4.342 milljónum króna í fyrra og jukust um 2,8% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst þá úr 2,8 milljörðum í rúmlega 2,9 milljarða, eða um 4,8%.

Fjárfesta fyrir milljarða á Ásbrú

Eignasafn Íveru tók nokkrum breytingum á liðnu ári. Félagið seldi íbúðir fyrir rúmlega 5 milljarða króna á síðasta ári og fækkaði íbúðum í eigu félagsins heilt yfir úr 1.507 í 1.486. Félagið seldi eignasafn sitt á Akureyri, samtals 120 íbúðir, á tæplega 5,1 milljarð króna til Kaupfélags Eyfirðinga í desember sl.

Í sama mánuði skrifaði félagið undir skuldbindandi kauptilboð um kaup á fjölbýlishúsi á Ásbrú á 575 milljónir króna. Þá gekk félagið frá kaupum á 29 íbúða fjölbýlishúsi að Eskiás 8 í Garðabæ í september sl. á 2,2 milljarða króna.

Félagið hefur haldið áfram fjárfestingum á Ásbrú á árinu 2025 og gekk nýverið frá kaupum á 40 íbúða fjölbýlishúsi af Ásbrú ehf fyrir nærri milljarð króna. Þá gekk félagið frá kaupum á tveimur fjölbýlishúsum í Móabyggð í Þorlákshöfn af Hamrakór ehf í janúar sl. Húsin eru samtals 1.100 fermetrar með 14 íbúðum og er heildarvirði viðskiptanna um 700 milljónir.

Stefna á tvöföldun eignasafnsins

Kaup SRE III slhf., sérhæfðs fagfjárfestasjóðs í stýringu hjá Stefni og alfarið í eigu lífeyrissjóða, á Heimstaden á Íslandi gengu í gegn í apríl í fyrra. Samhliða var nafni félagsins breytt í Íveru og er stefnt að því að tvöfalda eignasafnið á næstu árum í um það bil 3 þúsund íbúðir.

Kaupverðið nam tæplega 61 milljarði króna að meðtöldum yfirteknum skuldum. Sjóðurinn safnaði 40 milljörðum króna í áskriftir til kaupanna en þar af komu um 25 milljarðar til greiðslu við kaupin. Hinir 15 koma svo til greiðslu á þessu ári og verða notaðir í að endurfjármagna og greiða upp áhvílandi lán.

Eignir Íveru voru bókfærðar á 74 milljarða króna í árslok 2024, en þar af voru fastafjármunir um 72 milljarðar. Eigið fé var um 30,8 milljarðar.