Cinta2020, eigandi Cintamani, hagnaðist um 94 milljónir króna í fyrra samanborið við 74 milljóna hagnað árið áður.
Velta félagsins nam 477 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 315 milljónir árið áður. Eigið fé í lok árs 2021 nam 169 milljónum króna en var 75 milljónir árið 2020.
Á árinu 2021 voru ársverk félagsins samtals 5,5 og námu launagreiðslur 57 milljónum. Félagið keypti húsnæði og rekstur hjólabúðarinnar GÁP í Faxafeni 7 í mars á þessu ári, en meðal vörumerkja GÁP eru Cannondale, GT, Mongoose og Kross.
Einar Karl Birgisson leiðir félagið og er framkvæmdastjóri Cintamani. Hann á 50% hlut í Cinta 2020 á móti Hafdísi Björgu Guðlaugsdóttur.
Cinta2020 keypti vörumerki Cintamani ásamt vörulager og léni félagsins af Íslandsbanka í marsmánuði árið 2020. Þá hafði Íslandsbanki hafið söluferli eftir að endurskipulagning fyrri eiganda fór út um þúfur, en verslunin lokaði í lok janúar 2020 í kjölfar gjaldþrotaskipta.