Heiðar Guðjónsson fjárfestir gerði íslenska vinnumarkaðslíkanið að umræðuefni í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark. Hann segist skilja að ólíkar áherslur hafi verið meðal aðildarfélaga ASÍ fyrir núverandi kjaraviðræður „en það eru ennþá skiptari skoðanir Samtaka atvinnulífsins meginn“.
„Ég skil ekki þetta vinnumarkaðsmódel á Íslandi. Að það séu 2.400 fyrirtæki sem fylki sér á bak við eitthvað sem heitir Samtök atvinnulífsins og reyni að semja við [yfir hundrað] þúsund launþega sem eru á bak við ASÍ,“ segir Heiðar.
„Ég hef svo sem sagt að kannski það besta sem Samtök atvinnulífsins myndu gera er að leggja sjálf sig niður þannig að það verði 2.400 viðsemjendur hinum meginn. Og gangi ykkur vel.“
Spurður um hvernig íslenska vinnumarkaðslíkanið sé í erlendum samanburði, þá segir Heiðar að samtakamáttur veralýðshreyfinga og sambanda vinnuveitenda sé miklu meiri erlendis og umræðan þroskaðri. Þá sé Ísland sérstakt að því leyti hve hátt hlutfall fólks er í verkalýðsfélagi, sem megi að stórum hluta rekja til vinnumarkaðslöggjafarinnar hér. „Þetta flækir málin enn frekar.“
„Ef við skoðum síðan verkalýðsfélögin [...] Meirihluti fólks [í VR] er í einhvers konar skrifstofuvinnu, örfáir sem eru að vinna það sem mætti kalla verkamannavinnu. Hvernig á að vera hægt að semja fyrir allan þennan breiða hóp með einum samningi? Þetta bara gengur ekki upp.“
Heiðar nefnir einnig að vinnuveitendur félagsfólks VR starfi í ólíkum geirum. Hann tilgreinir sem dæmi að margir félagsmenn VR starfi hjá Icelandair. Veiking krónunnar styðji mjög við útflutningsfyrirtæki eins og Icelandair en gerir aftur á móti fyrirtækjum sem flytja inn vörur erfiðara fyrir.
„Bæði eru þetta mismunandi störf og í mismunandi greinum sem er verið að reyna að semja fyrir með einum samningi og það verður enginn ánægður. Það er miklu betra að brjóta þetta upp.“
Þarf að vera dýnamískt
Heiðar, sem starfaði sem forstjóri Sýnar árin 2019-2022, segir að innan fjölmiðla- og fjarskiptafélagins hafi langflestir starfsmenn ekki verið á lægstu töxtunum samkvæmt kjarasamningum. Það sama eigi við um önnur fyrirtæki sem vegni vel.
„Það er verið að greiða langt umfram taxtann. Hvers vegna er þá verið að leggja svona mikið upp úr þessum lágmarkstöxtum?“
Spurður um hvaða fyrirkomulag geti tekið við af núverandi vinnumarkaðsumgjörð, þá segir Heiðar að hjá nútíma vinnustöðum, bæði á Íslandi og erlendis, sé einfaldlega samið út frá viðkomandi einstaklingi hverju sinni. Hver geri bara ráðningarsamning sem henti sér.
„Vinstra fólk myndi segja að þarna væri einhver kapítalisti að reyna að veikja samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar. Það sést nú að samtakamáttur verkalýðshreyfingarinnar er ekkert sérstaklega mikill núna.“
Heiðar nefnir einnig að starfsmenn eru miðsverðmætir eftir því hvernig hæfileikar viðkomandi passa inn á vinnustað á hverjum tíma. Við ráðningu byrji flestir í hálfgerðu vinnutengdu námi og fái því lægri laun í fyrstu en svo eftir því sem sérfræðiþekkingin eykst vaxa launin ásmegin.
„Þetta þarf að vera dýnamískt. Það er ekki hægt að vera með einhverjar svona töflur eins og ríkið er með. Ef þú ert búinn að vinna í 30 ár, þá sjálfkrafa færðu miklu hærri laun heldur en einhver sem er bara búinn að vinna í, segjum 4-5 ár. Þó að þessi sem er búinn að vinna í 4-5 ár sé kannski með margfalt meiri afköst vegna þess að hann er með einhvers konar menntun eða þekkingu sem passar betur á þeim tíma.“
Nærast á hvort öðru
Heiðar, sem verður seint sakaður um að vera stuðningsmaður íslensku krónunnar, var spurður hvort hún valdi vandræðum fyrir íslenska vinnumarkaðinn og skapi þörf á að semja oftar en ella.
„Þetta er svona vanheilagt samband, þ.e. íslenska krónan og þessi miðstýrðu kjarasamningar. Þetta nærist hvort á öðru.
Ef fólk fengi bara að velja sér hvaða mynt það notar, að fyrirtæki geti gert upp í hvaða mynt sem er og fólk þegið laun í hvaða mynt sem er, þá ættu þessir miðstýrðu kjarasamningar ekkert erindi inni á borð.“
Heiðar ræðir um íslenska vinnumarkaðslíkanið frá 38:00-44:50.