Þegar Ísland innleiddi afleidda reglugerð um tæknileg matsviðmið flokkunarkerfis, í tengslum við EU-Taxonomy flokkunarreglugerðina frá ESB, var fjármálaráðuneytið fullmeðvitað um að stór hluti reglugerðarinnar ætti ekki við hér á landi og myndi leiða til þess að íslensk fyrirtæki gætu ekki sinnt samsvarandi upplýsingagjöf og fyrirtæki í Evrópu.
„Á ekki við hér á landi“
Í svari fjármálaráðuneytisins við áhyggjum nokkurra íslenskra fyrirtækja sem skiluðu inn umsögnum um reglugerðina kemur skýrt fram að ráðuneytið vissi að regluverkið leiðir til þess að íslensk fyrirtæki geti ekki sinnt upplýsingagjöf.
„Sú krafa verður ekki gerð til íslenskra fyrirtækja að upplýsa til hlítni við kröfur í Evrópusambandsgerðum sem ekki eiga við hér á landi, jafnvel þótt vísað sé til þeirra í reglugerð (ESB) 2020/852 eða undirgerðum hennar,“ segir í niðurstöðuskjali fjármálaráðuneytisins að loknu samráði.
„Það getur vissulega leitt til þess að upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja samkvæmt regluverkinu verði ekki samsvarandi upplýsingagjöf fyrirtækja í Evrópusambandinu, en það er óhjákvæmileg afleiðing þess að stór hluti þess regluverks sem reglugerð (ESB) 2020/852 og undirgerðir hennar byggjast á heyrir ekki undir EES-samninginn og á ekki við hér á landi,“ segir þar enn fremur
Ráðuneytið taldi engar umsagnir kalla á breytingar á drögum að reglugerðinni sem var send til birtingar í Stjórnartíðindum i byrjun árs.
Það virðist því vera svo að Ísland hafi ákveðið að velja verstu leiðina við innleiðingu regluverksins.
Íslensk fyrirtæki þurfa að ráðast í mikla vinnu með tilheyrandi ráðgjöf og kostnaði en innleiðingarhalli á enn meira regluverki frá ESB veldur því að þau geta ekki uppfyllt skyldur sínar með sama hætti og samsvarandi fyrirtæki í Evrópu.
Fer þetta einnig gegn markmiðum reglugerðarinnar en flokkunarkerfinu og öðrum afleiddum reglugerðum í sjálfbærni er ætlað að tryggja stöðlun og einsleitni í upplýsingagjöf svo t.d. erlendir fjárfestar geti borið saman sjálfbærnisupplýsingagjöf fyrirtækja í mismunandi löndum.
Ísland heldur þó eitt á Svarta-Pétri.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.