Megin niðurstaðna úr samrunaviðræðum Kviku við Íslandsbanka er að vænta „innan fárra vikna“ samkvæmt Marinó Erni Tryggvasyni bankastjóra Kviku. Kvika óskaði eftir samrunaviðræðunum í byrjun mánaðar og stjórn Íslandsbanka samþykkti þá beiðni í síðustu viku.
Kvika birti ársuppgjör fyrir síðasta ár fyrr í dag þar sem fram kom meðal annars að hagnaður ársins var 4,9 milljarðar og að arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 13,1%.
Í samtali við Viðskiptablaðið segist Marinó ánægður með rekstur félagsins og trausta fjárhagsstöðu þess. „Að mínu mati var síðasti fjórðungur ársins besti fjórðungur síðastliðins árs. Eins og fram hefur komið erum við í viðræðum við Íslandsbanka um mögulegan samruna og ég vænti þess að megin niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir innan fárra vikna. Ég hef væntingar um að hægt sé að auka samkeppni á fjármálamarkaði með þeim samruna, ekki síst með þeim fjártæknilausnum sem við kynntum í dag,“ segir hann.
Á kynningarfundi vegna uppgjörsins í dag lagði Marinó mikla áherslu á fjártækni, og sagði meðal annars innlánaþjónustuna Auði aðeins forsmekkinn af því sem koma skyldi.
„Við horfum á það svoleiðis að það að vera í stærra, öflugra félagi sé bara hraðall á þessa vegferð. Stærsta fjármálafyrirtæki landsins mun geta keyrt svolítið hratt á þetta.“
„Eins skrýtið og það hljómar teljum við að þessi samruni – ef af honum verður – ætti að geta aukið samkeppni,“ sagði Marinó og tók dæmi af því að snjallforritið Aur, sem Kvika heldur úti, færi í samkeppni við forrit stóru bankanna, þar með talið Íslandsbanka.
„Sem er ótrúlega spennandi af því að það hefur, allavega að mínu mati, ekki gerst áður á Íslandi að stórt félag búi til vörumerki sem ætlað er að herja á tiltekinn markað (e. attacking brand) sem er ekki bara að keppa við samkeppnisaðilana heldur sjálft sig líka. Það er þetta sem maður er að meina þegar maður segir að svona samruni eigi að geta verið hraðall á því að veita þessa þjónustu og auka samkeppni á markaði.“