Egilsson ehf., félag utan um rekstur ritfangaverslunarinnar A4, hagnaðist um 95 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 142 milljóna hagnað 2023. Félagið hyggst greiða út 34 milljóna króna arð til móðurfélagsins A4 ehf.

Velta félagsins jókst um 2,7% milli ára og nam 3.680 milljónum króna í fyrra. Félagið opnaði sína áttundu verslun í Reykjanesbæ í fyrra. Í skýrslu stjórnar segir að einnig hafi verið farið í miklar endurbætur á verslunum félagsins bæði í Smáralind og á Egilsstöðum.

Rekstrargjöld jukust um 4,5% og námu 3.428 milljónum króna. Ársverk voru 86 samanborið við 82 árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fór úr 304 milljónum í 252 milljónir milli ára.

Eignir Egilssonar voru bókfærar á 1.470 milljónir króna í árslok 2024 og eigið fé var um 577 milljónir. Egill Þór Sigurðsson er forstjóri og stærsti eigandi A4 í gegnum félagið Andvara.