Heildarfjárfesting uppfærðs samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu sem var undirritaður í hádeginu í dag nemur 311 milljörðum króna. Til samanburðar var kostnaðurinn áætlaður í kringum 160 milljarða í september 2023.

Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur um sjö ár eða fram til ársins 2040 „til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun“.

Heildarfjárfesting uppfærðs samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu sem var undirritaður í hádeginu í dag nemur 311 milljörðum króna. Til samanburðar var kostnaðurinn áætlaður í kringum 160 milljarða í september 2023.

Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur um sjö ár eða fram til ársins 2040 „til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun“.

Miklabraut verði lögð í göng

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að stærstu breytingarnar á einstökum verkefnum frá fyrri samgöngusáttmála séu að Miklabraut verði lögð í um 2,8 km jarðgöng með tengigöngum við Kringlumýrarbraut í stað 1,8 km Miklubrautstokks og að Sæbraut verði lögð í stokk í stað fyrri áforma um ein mislæg gatnamót.

Þá hafi ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verið útfærð með frjálsu flæði bílaumferðar auk sérrýmis Borgarlínu til að tengja Mjódd við almenningssamgöngukerfið.

Loks flytjast framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Norðlingavaðs og Bæjarháls yfir á samgönguáætlun. Stöðugt mat er lagt á valkosti sem leiða til aukinnar hagkvæmni og umferðaröryggis.

Tekjur af umferð frá og með 2030

Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.

Beint framlag ríkisins í samgöngusáttmálann verður 2,8 milljarðar króna á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess er gert ráð fyrir árlegu viðbótarframlagi að fjárhæð 4 milljarðar í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisins frá 2025 til og með 2029. Þá er gert ráð fyrir auknum ábata af þróun og sölu Keldnalands sem ríkið lagði inn í verkefnið við undirritun samgöngusáttmálans 2019.

Beint framlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu verður 1,4 milljarðar króna á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir króna bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025.

„Frá og með árinu 2030 er gert er ráð fyrir tekjum af umferð eða annarri fjármögnun ríkisins. Stjórnvöld vinna að nýrri nálgun á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum,“ segir í tilkynningunni.

„Stefnt er að því að laga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis, þar sem gjaldtaka miðast við notkun í stað sértækra gjalda á borð við olíu- og bensíngjöld. Fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin með upptöku kílómetragjalds á rafmagnsbíla, sem áður greiddu afar takmarkað fyrir notkun vegakerfisins.“

Segja samfélagið fá kostnaðinn þrefalt til baka

Samfélagslegur ábati á verkefnum samgöngusáttmálans, núvirt á verðlagi ársins 2023, var metinn á 1.140 milljarða króna til 50 ára samkvæmt sjálfstæðri greiningu verkfræðistofunnar Cowi.

Innri raunvextir eru metnir 9,2% og ábati sem hlutfall af kostnaði er um 3,5, að því er segir í tilkynningunni. „Það þýðir að fyrir hverja krónu sem lögð er í verkefnið fær samfélagið þrjár krónur til baka.“

Hlutdeild verkefnaflokka í samgöngusáttmálanum. Mynd tekin úr kynningu ríkisstjórnarinnar.
Hlutdeild verkefnaflokka í samgöngusáttmálanum. Mynd tekin úr kynningu ríkisstjórnarinnar.

Stofna félag um stuðning við almenningssamgöngur

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, undirrituðu hinn uppfærða sáttmála í dag. Sáttmálinn var kynntur á blaðamannafundi í hádeginu.

Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins.

Stofnað verður sameiginlegt félag um skipulag og rekstur sem mun bera ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.

„Með nýju leiðaneti og Borgarlínu er stefnt að því að sjö af hverjum tíu íbúum verði í göngufjarlægð (400 m frá stoppistöð) frá hágæða almenningssamgöngum sem ganga á sjö-tíu mínútna fresti.“