Drög að uppgjöri Arion banka fyrir fjórða ársfjórðung 2024 liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins um 8,3 milljarðar króna sem leiðir til 13,2% arðsemi eiginfjár á árinu 2024.
Samkvæmt kauphallartilkynningu bankans er því afkoma fjórðungsins um 28% yfir meðaltalsspá greiningaraðila.
„Munurinn liggur helst í betri afkomu af verðbréfum samstæðunnar og jákvæðari virðisbreytingu lánabókar en greiningaraðilar gera almennt ráð fyrir. Tekjur af kjarnastarfsemi, samanlagðar hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, eru að mestu í takt við spár greiningaraðila,“ segir í tilkynningunni.
Arion banki setur þann varnagla að uppgjörið gæti tekið breytingum en það verður birt 12. febrúar næstkomandi.
Á þriðja ársfjórðungi hagnaðist Arion banki um 7,9 milljarða króna sem var hækkun úr 6,1 milljarði á sama tímabili í fyrra.
Arðsemi eiginfjár var 16,1% á fjórðungnum sem er töluvert hærra en arðsemi hinna kerfislega mikilvægu bankanna.
Arðsemi Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins nam því 10,2% sem var 2,8% undir arðsemiskröfum stjórnar bankans en eftir uppgjör þriðja ársfjórðungs fór arðsemi á fyrstu níu mánuðum ársins upp í 12,2%.