Samkvæmt árshlutauppgjöri Landsbankans er gert ráð fyrir að aðalmeðferð í máli Neytendasamtakanna gegn bankanum, um hvort skilmálar lána með breytilegum vöxtum hafi verið óskýrir, hefjist 5. nóvember.
Í bráðabirgðamati Landsbankans á mögulegum áhrifum neikvæðrar, endanlegrar dómsniðurstöðu á lánasafn bankans með þessu vaxtaákvæði er gert ráð fyrir að fjárhagslegt tap bankans gæti numið um 21,2 milljörðum króna.
Landsbankinn tekur þó fram að í þessu mati þurfi að taka tillit til mismunandi sviðsmynda en um er að ræða bráðabirgðamat miðað við núverandi vaxtaumhverfi.
Bráðabirgðamatið nær til að mynda ekki til mats á áhrifum á fastvaxtaáhættu bankans ef endanleg dómsniðurstaða verður sú að miða skuli við upphaflega samningsvexti út lánstíma viðkomandi lána.
Slík niðurstaða myndi auka fastvaxtaáhættu bankans verulega og gæti haft veruleg neikvæð fjárhagsleg áhrif á bankann við hækkandi vaxtastig á mörkuðum. Bankinn hefur ekki fært varúðarfærslu vegna málsins, samkvæmt árshlutauppgjöri Landsbankans.
Íslandsbanki gerir ráð fyrir í árshlutauppgjöri sínu að mögulegt fjárhagslegt tap af endanlegri niðurstöðu gæti endað í 15 milljörðum króna. Sambærilegir fyrirvarar eru á bráðabirgðamati Íslandsbanka.
Sameiginlegt tap bankanna tveggja vegna mála Neytendasamtakanna gæti því munið 36,2 milljörðum króna.
Neytendastofa rekur nú svipað mál um breytilega vexti fyrir Landsrétti og er málflutningur í haust.
Mál Neytendastofu snýr að Íslandsbanka og byggir á því meðal annars að upplýsingagjöf til neytenda væri ekki nægilega góð.
Í maí á þessu ári birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka en þar sagði dómstóllinn að íslenskir lánveitendur þyrftu að skýra skilmála lána með breytilegum vöxtum betur.
Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur vísuðu spurningum til EFTA-dómstólsins vegna mála snýr að bæði Íslandsbanka og Landsbankanum.
Íslandsbanki var sýknaður af kröfum Neytendastofu í héraði en ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins var hluti af málinu fyrir Landsrétti en það er einungis ráðgefandi fyrir íslenska dómstóla. Endanlegt mat á lánunum er í höndum íslenskra dómstóla.
Sjö spurningar voru lagðar fyrir EFTA-dómstólinn í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka sem snúa allar að túlkun 5. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendavernd.
Um er að ræða álitaefni eins og hvort túlka eigi tilskipunina með þeim hætti að lánveitandi verði að útlista með tæmandi hætti, bæði á hinu staðlaða SECCI-eyðublaði og í lánssamningnum, skilyrðin sem liggja því til grundvallar að hann ákveði að breyta útlánsvöxtum láns með breytilegum vöxtum, svo dæmi séu tekin.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu m. a. að túlka eigi tilskipunina með þeim hætti að lánveitanda beri að útlista með tæmandi talningu, bæði á stöðluðu eyðublaði með stöðluðum upplýsingum um evrópsk neytendalán (SECCI) og í lánssamningnum, þau skilyrði sem ákvörðun hans um að breyta vöxtum láns með breytilegum vöxtum byggist á.
Í ráðgefandi álitinu er þó einnig komist að þeirri niðurstöðu að það sé landsdómstóla, þ.e. íslenskra dómstóla, að skera úr um hvort skilmálar samnings um fasteignalán með breytilegum vöxtum uppfylli kröfur tilskipunarinnar um góða trú, jafnvægi og gagnsæi.
Þá er það einnig dómstóla hérlendis að meta hvort skilmálar teljist óréttmætir samkvæmt tilskipuninni og hvaða afleiðingar það hafi ef skilmálar eru taldir óréttmætir