Amaroq Minerals, sem hét áður AEX Gold, birti í morgun uppfært auðlindamat sem byggir á borunum frá 2020 og 2021 (e. Mineral Resource Estimate, MRE) fyrir Nalunaq leitarsvæðið á Suður-Grænlandi og er þetta þriðja útgáfa þess.
Helstu niðurstöður matsins er að gullmagn á hvert tonn af bergi hækkar úr 18 grömmum af gulli í 28 grömm og áætlað heildarmagn gulls hefur hækkað úr 250.000 únsum í 320.000 únsur, sem jafngildir um 10 tonnum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Gullverð í dag er 1.710 dollara á hverja únsu. Því segir Amaroq að heildar söluverðmæti gullsins hafi því farið úr 427,5 milljónum dollara í 547,2 milljónir eða úr 60 milljörðum króna í 80 milljarða.
„Það að magn af gulli á hvert tonn hækkar úr 18g/t í 28g/t gerir það að verkum að það verður arðbærara en ella að vinna efnið úr berginu. Nalunaq náman er núna ein af þeim námum sem hafa hæsta gullstyrk í heiminum í dag.“
Sjá einnig: Grænland mikilvægt fyrir orkuskiptin
Matið var unnið af óháðum aðila, SRK Exploration Services samkvæmt reglum Toronto Stock exchange og London Stock Exchange.
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq:
„Nú hafa rannsóknir okkar 2020 og 2021 verið yfirfarnar af óháðum matsmönnum og niðurstaðan er að heildargullmagn á svæðinu er 28% meira og magn gulls í hverju tonni í bergsýnum er 51% hærra en í fyrra mati. Nýja matið er mikilvægt fyrir okkur til að taka næsta skref inn í framtíðina. Gullstyrkurinn í Nalunaq þýðir að náman er í topp 2% af gullfundum á heimsvísu hvað varðar hlutfall af gulli á hvert tonn.
Næstu niðurstöður munu byggja á borunum frá því í sumar en við búumst við að segja frá þeim niðurstöðum núna í haust, og gert er ráð fyrir því að gullvinnsla hefjist á næstu árum
Berggangamódelið sem við vinnum eftir, sem á ensku er kallað Dolerite Dyke Model, hefur gert okkur kleift að afmarka betur þau svæði innan gullæðinnar þar sem gullmagnið er mest og einbeita okkur að þeim og ná þar með meiri hagkvæmni í vinnslu.“