Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að ríkissjóður verði rekinn með 58,6 milljarða króna halla á næsta ári. Þegar fjárlagafrumvarp fyrir 2025 var kynnt var áætlað að hallinn yrði 41 milljarður króna.

Þetta kemur fram í kynningu fjármálaráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd, þar sem lagðar eru fram tillögur að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Áætlaður heildarjöfnuður ríkissjóðs fyrir árið 2025 hefur því lækkað um 17,6 milljarða króna, eða sem nemur 0,4% af vergri landsframleiðslu, frá áætlun í fjárlagafrumvarpinu sem var kynnt þann 10. september næstkomandi.

Hallareksturinn sem hlutfall af VLF a næsta ári er nú áætlaður í kringum 1,2%, en var áður áætlaður 0,8% af VLF.

Tekið úr kynningu fjármálaráðuneytisins.

Tekjuhorfur lækka um meira en 20 milljarða

Lakari afkomuhorfur ríkissjóðs eru einkum raktar til endurmats á heildartekjum ríkissjóðs á næsta ári. Þær lækka um 20,7 milljarða króna frá því mati sem lá til grundvallar fjárlagafrumvarpsins og eru nú áætlaðar um 1.427,8 milljarðar.

Heildarútgjöld ríkisins lækka um 3,1 milljarð frá frá áætlun fjárlagafrumvarpsins.

„Eftir framlagningu fjárlagafrumvarps ársins 2025 hafa útgjöld verið uppfærð til samræmis við uppfærða þjóðhagsspá og tekjuáætlun ásamt launa-, verðlags- og gengisbreytingum sem eru óverulegar,“ segir í kynningunni.

Gert er ráð fyrir nýjum og auknum verkefnum upp á 8,6 milljarða króna sem lagt er til að komi til framkvæmda á árinu 2025. Þessum breytingum verði mætt með samsvarandi lækkun á almennum varasjóði og hafa þau því ekki áhrif á heidarútgjöld frumvarpsins.

Hagstofan birti í morgun nýja þjóðhagsspá. Í henni er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 0,1% í ár og 2,4% á næsta ári en til samanburðar gerði þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birt var í lok júní ráð fyrir 0,9% hagvexti í ár og 2,6% hagvexti á næsta ári.

Hagstofan færði einnig niður verðbólguspá sína árið 2024 úr 6,0% í 5,9% og fyrir árið 2025 úr 3,9% í 3,8%.

Vilja hækka lánsheimild ríkissjóðs

Fjármálaráðuneytið áætlar nú að skuldir samkvæmt skuldareglu verði 32,5% af VLF í árslok 2025, sem er 1,1 prósentustigi hærra en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Lagt er til að breyta heimildum í frumvarpinu þannig að lánsheimild ríkisins hækki úr 170 í 190 milljarða króna.