Fyrirtækið Abler hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis en velta fyrirtækisins jókst um 109% milli ára.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann 2024 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal fyrr í dag.
Fyrirtækið Abler hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis en velta fyrirtækisins jókst um 109% milli ára.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann 2024 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal fyrr í dag.
Sprotafyrirtækið Abler, sem var stofnað árið 2017, þróar hugbúnað sem einfaldar og eflir íþrótta- og tómstundastarf með því að tengja saman iðkendur, foreldra, þjálfara og skipuleggjendur.
Meðal notenda Abler eru íþróttafélög, skátar, tónlistarskólar, ungbarnasund, félagsstarf eldri borgara og líkamsræktarstöðvar. Abler þjónustar einnig fjölmarga aðila erlendis og stefnir fyrirtækið að því að efla vöxt útflutningstekna.
Velta fyrirtækisins jókst um 109% á milli áranna 2022 og 2023, fór úr 104 milljónum króna í 220 milljónir króna. Starfsmenn Abler eru 30 talsins.
„Það er mikill heiður og hvatning að fá þessa viðurkenningu. Við höfum verið lánsöm að vera í góðu samstarfi við fjölda aðila hér á landi sem eru að hlúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu í gegnum starfsemi sína á hverjum degi. Við áformum að þróa áfram framsæknar lausnir sem verða virðisaukandi fyrir íslenska íþróttahreyfingu og samfélagið í heild sinni með það að leiðarljósi að gera gott starf enn betra,“ segir Markús Máni M. Maute, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Abler.
Ankeri verðlaunað fyrir góðan vöxt
Ankeri Solutions, sem var stofnað árið 2016, hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Velta fyrirtækisins jókst um 81% á milli ára, fór úr 54 milljónum króna í tæplega 98 milljónir króna. Starfsmenn Ankeri og starfsmenn eru 18.
Hugbúnaður Ankeri Solutions tengir saman eigendur flutningaskipa og leigjendur þeirra. Markmið Ankeris er að hugbúnaður fyrirtækisins verði til þess að bæta rekstur og skilvirkni í skipaiðnaðinum sem skili sér í hagræðingu í rekstri heimsflutninga. Markaðir félagsins eru fyrst og fremst erlendis og eru því rekstrartekjur að mestu í erlendri mynt.
Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Þetta er í 18. sinn sem Vaxtarsproti ársins er afhentur.
Í dómnefnd voru Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís, Ellen María Schweitz Bergsveinsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Erla Tinna Stefánsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins.