Bandaríski vogunarsjóðstjórinn og auðkýfingurinn Bill Ackman hefur sett á ís fyrirhugað frumútboð á nýjum sjóð sem átti að höfða til almennra fjárfesta. Upphaflega stóð til að sjóðurinn yrði skráður í NYSE kauphöllina í þessari viku.

Ackman hefur undanfarnar vikur kynnt áform um fjárfestingarfyrirtæki sem myndi vekja athygli á skráðum mörkuðum, halda sambærilega aðalfundi og Berkshire Hathaway og að lokum ná inn í S&P 500 hlutabréfavísitölunni.

Upphaflega stefndi Ackman að því að sækja í kringum 25 milljarða dala í frumútboðinu og nýta sér vinsældir sínar á samfélagsmiðlum. Hann endaði þó á að færa niður viðmiðið í 2 milljarða dala en það virðist sem hann hafi sett markið of hátt til að byrja með.

Ackman sagði í fréttatilkynningu að hann væri að endurhugsa fyrirkomulagið á sjóðnum, Pershing Square USA, til þess að bregðast við áhyggjum tilvonandi fjárfesta.

Markaðsvirði margra lokaðra sjóða (e. closed-end funds), sem selja fastan fjölda hluta á markaði, hafa farið undir bókfært virði eigna á síðustu misserum. Ackman sagðist hafa orðið var við að margir fjárfestar væru að spyrja sig hvort betra væri að kaupa hlut í hinum nýja sjóð á eftirmarkaði fremur en að taka þátt í útboðinu sjálfu. Fyrir vikið þyrfti mögulega að breyta fyrirkomulaginu í kringum skráninguna.