Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði, segir áætlanir stjórnvalda um hækkun veiðigjalda og umræðuna sem hefur skapast um þau áform í fjölmiðlum á miklum villigötum. Stjórnvöld haldi því fram að fiskur sem seldur sé á uppboðsmörkuðum hér á landi endurspegli hið rétta markaðsverð og því sé nauðsynlegt að leiðrétta verðmyndun á bolfiskhráefni.

„Þessu er haldið fram þó góð sátt hafi náðst um verðlagningu hráefnis á bolfiski á milli sjómanna og útgerða, eins og nýgerður kjarasamningur við sjómenn ber vott um. Allir sem starfa í greininni vita að uppboðsmarkaður með fisk á Íslandi er skortmarkaður, þar sem einungis 15-18% af þorski sem kemur að landi er seldur á uppboðsmarkaði.“

Hann segir að svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki kynnt sér að síðustu ár hafi erlendir kaupendur verið mjög umsvifamiklir á uppboðsmörkuðunum hér landi. Afleiðing þess séu svo miklar hækkanir að íslenskar fiskvinnslur nái ekki að keppa við erlenda kaupendur sem svo leiði til þess að fiskurinn sé fluttur úr landi óunninn, án þess að skapa nein verðmæti hér á landi. „Hinn erlendi rekstrargrundvöllur er allt annar en sá íslenski. Erlendis er húsnæði og fiskvinnsluvélar í flestum tilfellum niðurgreitt, af ríki, sveitafélögum og Evrópusambandinu – þar sem rekstur fiskvinnsla er ekki sjálfbær, auk þess sem laun starfsfólks eru aðeins þriðjungur af því sem er hér á landi.“

Afkastageta íslenskra fiskvinnsla sé því mun meiri en allur sá afli sem berist að landi af þorski og ýsu. „Eftirspurn eftir vörunum er sömuleiðis mikil en samt eykst á hverju ári magn óunnins fisks sem fluttur er út í gegnum uppboðskerfið, vegna þess hve hátt verðlag er. Íslenskar fiskvinnslur geta einfaldlega ekki keppt við hið meinta „rétta markaðsverð“ stjórnvalda sem myndast hefur á uppboðsmörkuðunum vegna framan talinna atriða. Fram hjá þessari staðreynd horfa stjórnvöld,“ segir Skjöldur.

Litlar og meðalstórar vinnslur illa settar

Hann segir litlar og meðalstórar fiskvinnslur sérstaklega illa settar. Þær standi oft frammi fyrir skorti á hráefni en séu samt bundnar háum launagreiðslum og háum föstum kostnaði, á sama tíma og fiskur sé fluttur óunninn úr landi. „Verðið sem nú er skilgreint sem „rétt markaðsverð“ af stjórnvöldum er einfaldlega of dýrt fyrir íslenskar vinnslur, þrátt fyrir mikil afköst, nýjustu tækni og vel mannaðar vinnslur.“

Erlendir kaupendur séu nú spurðir um hvort markaðurinn muni þola þessa hækkun á fiskverði og svörin séu öll á sama veg: „Gleymdu því.“ Enginn markaður geti tekið þá hækkun sem fylgi þessu „ríkis markaðsverði“. Verð á hráefni og afurðum sé nú þegar í sögulegu hámarki, sem m.a. megi sjá á því að laun sjómanna á hvern úthaldsdag hafi sjaldan eða aldrei verið hærri.

Veiðigjald Odda hækkar um 75%

Viðbrögð stjórnvalda við áhyggjum lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafi verið á þann veg að búið sé að smíða inn í frumvarpið lausn sem felist í „stórauknu“ frítekjumarki sem eigi að milda áhrifin eða jafnvel hafa engin áhrif á þennan hluta sjávarútvegsins. Skjöldur hefur aftur á móti tekið saman áhrif hærri veiðigjalda á rekstur Odda og segir sá útreikningur allt aðra sögu. Samkvæmt honum mun félagið þurfa að borga 75% hærri veiðigjöld en áður, eða 140 milljónir í stað 80.

„Oddi hf., sem er með innanvið 0,5% aflahlutdeild í bolfiski, og getur því í besta falli talist nógu stórt til að vera meðalstórt fyrirtæki, borgaði 80 milljónir í veiðigjöld á síðasta ári en mun þurfa að borga 60 milljónir til viðbótar samkvæmt frumvarpinu, eða samtals 140 milljónir. Núverandi frítekjumark er 2,4 milljónir en verður hækkað í 8 milljónir. Hækkunin á veiðigjaldi Odda verður þá um 55 milljónir. Þetta kallar ráðherra aðgerð til að hlífa þessari stærð fyrirtækja við hækkandi veiðigjöldum. Það þarf ekki sterk gleraugu til að sjá að þessi aðgerð má sín lítils.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.