Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka, kallar eftir því að íslenska ríkið haldi áfram að draga úr eignarhaldi sínu á fjármálafyrirtækjum en þannig megi m.a. auka tiltrú erlendra fjárfesta á íslenskum fjármálamarkaði.
„Í gegnum eignarhald sitt á tveimur af þremur stóru bönkunum hér á landi er íslenska ríkið enn umsvifamesti aðilinn á íslenskum fjármálamarkaði. Það gefur augaleið að það er ekki ákjósanlegt að Arion banki sé eini bankinn af þessum þremur sem er alfarið í einkaeigu,“ segir Brynjólfur í ávarpi í nýútgefinni ársskýrslu Arion.
Hann tekur fram að ríkið hafi vissulega tekið skref til að draga úr eignarhaldi ríkisins a undanförnum árum „en betur má ef duga skal“.
„Hnökrar á framkvæmd sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka á árinu 2022 eiga ekki að verða til þess að horfið verði af þeirri braut að draga úr umsvifum ríkisins eða hægja á þeirri vegferð. Það þarf einfaldlega að læra af reynslunni og horfa til næstu skrefa. Aðalatriðið er að losa um eignarhald ríkisins og auka með því tiltrú erlendra fjárfesta.“
Stjórnvöld þurfi að jafna leikinn
Brynjólfur segir að stjórnvöld þurfi einnig að jafna samkeppnisstöðu innlendra banka gagnvart erlendum bönkum sem sækjast eftir viðskiptum íslenskra fyrirtækja. Erlendir bankar búi við lægri skatta, lægri kröfur um eigið fé og minna íþyngjandi fjármálaeftirlit.
„Við fögnum allri samkeppni en það þarf að jafna leikinn,“ segir Brynjólfur. „Það er ekki nóg að bankinn vinni að aukinni skilvirkni og sterkum rekstri ef stjórnvöld skapa hamlandi starfsumhverfi.“
Hann kallar einnig eftir að stjórnvöld fjarlægi hindranir sem enn eru til staðar á gjaldeyrismarkaði og stuðli þannig að heilbrigðum og virkum gjaldeyrismarkaði.