Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur lagt til við Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að hann stígi til hliðar og að annar sáttasemjari verði skipaður í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Vísir greindi fyrst frá.

Lands­rétt­ur hafnaði í dag kröfu rík­is­sátta­semj­ara í inn­setn­ing­ar­máli embætt­is­ins gegn Efl­ingu um að fá af­henda kjör­skrá fé­lags­ins vegna miðlun­ar­til­lögu sem rík­is­sátta­semj­ari setti fram. Landsréttur vísaði í lög­skýr­ing­ar­gögn frá 1996 þar sem komi fram að ekki sé vilji lög­gjaf­ans að veita rík­is­sátta­semj­ara þau völd að geta krafið stétt­ar­fé­lag um kjör­skrá.

„Þetta er dálítið sérstök staða, óvenjuleg staða, sem ég bjóst alls ekki við. Hún er líka fordæmalaus þannig maður veltir fyrir sér hvaða markmiðum hægt er að ná með [miðlunartillögunni] vegna eðli málsins samkvæmt er hún sett fram sem síðasta úrræði í hörðum og erfiðum kjaradeilum. En núna liggur fyrir að það er ekki hægt að framkvæma atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ef annar hvor aðilinn neitar að afhenda kjörgögn til þess að það geti gerst,“ hefur Vísir eftir Aðalsteini. 

Efl­ing og rík­is­sátta­semj­ari gerðu sam­komu­lag fyr­ir helgi sem kveður á um að aðfar­ar­beiðni embætt­is­ins með aðstoð sýslu­manns væri frestað þangað til niðurstaða Lands­rétt­ar væri ljós. Efling og sáttasemjari skuldbundu sig til þess að una úr­sk­urði Lands­rétt­ar og verður hann því ekki kærður til Hæsta­rétt­ar.

Í kjölfar þess að Landsréttur kvað upp úrskurð kallaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir því að Aðalsteinn myndi segja sig frá deilunni.

Túlkun vinnulöggjafarinnar í uppnámi

SA sögðu í tilkynningu að í kjölfar úrskurðar Landsréttar væri ljóst að núverandi verkfallahrina muni halda áfram að öllu óbreyttu. SA segjast nú róa öllum árum að því að bregðast við nýjustu fréttum og lágmarka allt tjón sem þessi framvinda valdi.

„Ljóst er að túlkun vinnulöggjafarinnar er í uppnámi. Miðlunartillagan er lögmæt en afhending kjörskár ekki, sem er þó forsenda atkvæðagreiðslu svo miðlunartillagan öðlist gildi,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Efling boðaði í dag til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun sem nær til allra starfa hjá öryggisgæslufyrirtækjum og hótelum auk allrar vinnu við ræstingastörf hjá ræstingafyrirtækjum. Verkfallsboðunin nær til tæplega 1.650 manns.

Enn stendur yfir ótímabundin vinnustöðvun á sjö hótelum Íslandshótela. Að óbreyttu hefjast einnig verkföll á hótelum Berjaya og Edition-hótelinu annars vegar og hins vegar hjá starfsmönnum við vörubifreiðaakstur og olíudreifingu á miðvikudaginn, 15. febrúar.