Veitingasvæðið Aðalstræti er nú opið í brottfararsal Keflavíkurflugvallar en þar má finna veitingastaðina Yuzu, La Trattoria og Zócalo.

Það var hönnunarteymið HAF Studio sem hannaði Aðalstræti og svæðið í kringum veitingasvæðið. Áhersla var lögð á að skapa heildrænt rými sem minnir á útisvæði og stemningu miðborgar Reykjavíkur.

„Við höfum beðið spennt eftir því að Aðalstræti opni í KEF og erum virkilega stolt af þessari viðbót við flugvöllinn. Zócalo, La Trattoria og Yuzu eru allt frábærir veitingastaðir með sín sérkenni og bæta enn frekar úrvalið í flugstöðinni,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga.

Aðalstræti er staðsett í nýrri austurálmu flugvallarins og er þetta fyrsta skrefið í opnun inn á aðra hæð álmunnar sem mun stórbæta aðstöðu fyrir brottfararfarþega.