Bjöllum Nasdaq-kauphalla hefur víða verið hringt þessa vikuna í tilefni af Alþjóðlegri fjárfestaviku 7. – 11. október. Tilefnið er að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir almenning um fjárfestingar og sparnað.

Nasdaq Iceland, ásamt Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) og Landssamtökum lífeyrissjóða (LL), stóðu að hringingu Kauphallarbjöllunnar í ár með aðstoð ungmenna sem unnu Fjármálaleika SFF árið 2023 og 2024.

„Góður skilningur á fjármálum getur hjálpað fólki að ná betri tökum á eigin fjárhag og taka upplýstar ákvarðanir um sparnað. Verðbréfamarkaðurinn gegnir stóru hlutverki í þessum efnum sem vettvangur sem hefur beint og óbeint áhrif á fjárhag okkar,” segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa undanfarin tíu ár haldið úti fræðsluvettvanginum Fjármálaviti með stuðningi Landssamtaka lífeyrissjóða. Meginmarkmiðið er að stuðla að bættu fjármálalæsi ungmenna og styðja kennara í grunn- og framhaldsskólum í kennslu um fjármál, meðal annars með fríu námsefni og öðrum viðburðum tengdum fjármálalæsi.

Á þessu tímabili hefur Fjármálavit gefið kennurum og nemendum um 18.000 bækur auk þess að styðja þá kennara sem þess óska.

„Það er afar mikilvægt að öllum börnum sé gefinn kostur á að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Því höfum við talað fyrir því að kennsla í fjármálum verði hluti af skyldunámi í grunnskólum. Nýleg könnun Gallup fyrir SFF sýndi að einungis 11% ungs fólks hefði fengið fjármálafræðslu í grunnskóla,“ segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.