Fjöldi nýrra íbúða í byggingu verður óbreyttur næstu tólf mánuði samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins.

Samkvæmt könnuninni, sem var framkvæmd meðal stærstu verktakafyrirtækja í landinu, standa háir vextir, skortur á lóðum og skattabreytingar ríkisins í vegi fyrir frekari uppbyggingu.

„Heildarfjöldi íbúða í byggingu hjá fyrirtækjum sem tóku þátt í könnuninni er 2.288 sem nemur um 34% af íbúðum í byggingu á landinu öllu samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Ef áform fyrirtækjanna ganga eftir verða 2.236 íbúðir í byggingu eftir tólf mánuði. Fyrirtækin í könnuninni hófu byggingu 646 íbúða á síðustu tólf mánuðum sem er minna en þau áforma að hefja á næstu tólf mánuðum. Niðurstöðurnar benda því til þess að uppbygging íbúða á fyrstu byggingarstigum sé að glæðast, segir í greiningu SI.

Í fréttatilkynningu frá SI kemur fram að þetta ástand ógni stöðugleika á íbúðamarkaði og gæti aukið enn frekar á húsnæðisskortinn.

Niðurstöður kannanarinnar sýna að fjöldi íbúða í byggingu verður nánast óbreyttur næstu 12 mánuði. Fyrirtækin áforma að hefja byggingu 1.164 íbúða á þessu tímabili, á meðan 1.216 íbúðir verða fullbúnar og afhentar á sama tíma.

„Það er alvarlegt ástand þegar fjöldi íbúða í byggingu helst stöðugur og ekki er að sjá aukna uppbyggingu. Þessi staða eykur á skort á íbúðum og dregur úr jafnvægi á markaðnum,“ segir í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Skattbreytingar hafa hamlað uppbyggingu

Ein helsta hindrunin á uppbyggingu er breyting á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna íbúðaframkvæmda. Síðasta ríkisstjórn lækkaði endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 35% um mitt ár 2023 án fyrirvara. Nær allir stjórnendur í könnuninni (83%) segja þessa breytingu hafa dregið úr íbúðauppbyggingu fyrirtækja sinna.

Samtök iðnaðarins hafa áður varað við þessari stefnu og bent á að hún myndi skerða framboð nýrra íbúða og auka á húsnæðisskortinn.

Háir vextir hafa haft veruleg áhrif á áætlanir fyrirtækjanna. Um 89% stjórnenda segja að vaxtahækkanir hafi dregið úr uppbyggingaráformum og sama prósent telur að hár fjármögnunarkostnaður muni leiða til frekari samdráttar á næstunni.

Skortur á byggingarlóðum er önnur helsta hindrunin. Um 67% stjórnenda segjast hafa orðið fyrir verulegum áhrifum af lóðaskorti undanfarin ár, þar sem sveitarfélög hafi ekki staðið við markmið sín um nægilegt framboð byggingarlóða. Þetta ójafnvægi á markaðnum hefur ekki aðeins dregið úr framboði íbúða heldur einnig stuðlað að aukinni verðbólgu og hærri vöxtum.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður vænta stjórnendur aukinnar eftirspurnar eftir nýjum íbúðum. Á síðustu tólf mánuðum seldust um 495 íbúðir hjá fyrirtækjunum, en á næstu tólf mánuðum áætla þau að selja 1.188 íbúðir. Hins vegar hefur sölutími íbúða lengst. Um 78% stjórnenda segja að meðalsölutími sé nú 13–15 vikur, sem þó er talið merki um jafnvægi á markaðnum.

Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að endurskoða skattbreytingar og auka framboð byggingarlóða. „Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax til að tryggja stöðugleika á íbúðamarkaði, bæta skilyrði fyrir uppbyggingu og sporna við áframhaldandi verðbólguþrýstingi,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.