Grindavíkurbær lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á veiðigjaldi og varar við því að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, geti stórskaðað atvinnulíf í bænum. Bæjaryfirvöld telja að áætlaðar hækkanir geti aukið álögur á útgerðir í Grindavík um yfir 400 milljónir króna á ári.
Atvinnulíf í bænum stendur veikt en aflaheimildir hafa þó ekki flust frá Grindavík þrátt fyrir náttúruhamfarir.
Bæjarráð ákvað fyrir helgi að ítreka áhyggjur sínar með annarri umsögn til atvinnuveganefndar vegna málsins.
„Starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja á þessari vertíð er að færast nær því umfangi sem áður var. Bæjarráð varaði eindregið við því að aðgerðir stjórnvalda veiki forsendur atvinnulífs í bænum og lagði því til að framlagningu frumvarps til veiðigjalda yrði frestað,“ segir í umsögninni sem Fannar Jónasson bæjarstjóri kvittar undir.
Grindavíkurbær tekur undir kröfur sjávarútvegsfélaga um að áhrif veiðigjaldahækkana verði vandlega greind áður en málið verður afgreitt á Alþingi og að breytingar verði innleiddar í áföngum til að draga úr skyndilegum áhrifum á byggðafestu og atvinnu.
„Einnig að unnin verði sérstök greining á áhrifum hækkaðra veiðigjalda á lítil og meðalstór fyrirtæki því líkur eru á að talsverður fjöldi slíkra fyrirtækja verði fyrir verulegum áhrifum af boðuðum breytingum, svo miklum að það ógni tilvistargrundvelli margra þeirra.“
Þá hvetur bæjarfélagið til þess að frumvarpinu verði breytt í þá veru að stigin verði minni skref í átt til hækkunar veiðigjalda og þau tekin yfir lengri tíma.
„Það dregur úr líkum á skyndilegri röskun á atvinnulífi og tekjugrunni sveitarfélaga, eykur fyrirsjáanleika og gefur sveitarfélögum og fyrirtækjum svigrúm til að greina áhrifin og aðlagast og minnkar hættu á samdrætti og fækkun starfa með tilheyrandi afleiðingum á byggðafestu.“