Grinda­víkur­bær lýsir yfir áhyggjum af fyrir­huguðum breytingum á veiði­gjaldi og varar við því að frum­varpið, verði það óbreytt að lögum, geti stór­skaðað at­vinnulíf í bænum. Bæjar­yfir­völd telja að áætlaðar hækkanir geti aukið álögur á út­gerðir í Grinda­vík um yfir 400 milljónir króna á ári.

At­vinnulíf í bænum stendur veikt en afla­heimildir hafa þó ekki flust frá Grinda­vík þrátt fyrir náttúru­ham­farir.

Bæjarráð ákvað fyrir helgi að ítreka áhyggjur sínar með annarri um­sögn til at­vinnu­vega­nefndar vegna málsins.

„Starf­semi sjávarút­vegs­fyrir­tækja á þessari vertíð er að færast nær því um­fangi sem áður var. Bæjarráð varaði ein­dregið við því að að­gerðir stjórn­valda veiki for­sendur at­vinnulífs í bænum og lagði því til að fram­lagningu frum­varps til veiði­gjalda yrði frestað,“ segir í um­sögninni sem Fannar Jónas­son bæjar­stjóri kvittar undir.

Grinda­víkur­bær tekur undir kröfur sjávarút­vegs­félaga um að áhrif veiði­gjalda­hækkana verði vand­lega greind áður en málið verður af­greitt á Alþingi og að breytingar verði inn­leiddar í áföngum til að draga úr skyndi­legum áhrifum á byggða­festu og at­vinnu.

„Einnig að unnin verði sér­stök greining á áhrifum hækkaðra veiði­gjalda á lítil og meðal­stór fyrir­tæki því líkur eru á að tals­verður fjöldi slíkra fyrir­tækja verði fyrir veru­legum áhrifum af boðuðum breytingum, svo miklum að það ógni til­vistar­grund­velli margra þeirra.“

Þá hvetur bæjarfélagið til þess að frum­varpinu verði breytt í þá veru að stigin verði minni skref í átt til hækkunar veiði­gjalda og þau tekin yfir lengri tíma.

„Það dregur úr líkum á skyndi­legri röskun á at­vinnulífi og tekju­grunni sveitarfélaga, eykur fyrir­sjáan­leika og gefur sveitarfélögum og fyrir­tækjum svigrúm til að greina áhrifin og aðlagast og minnkar hættu á sam­drætti og fækkun starfa með til­heyrandi af­leiðingum á byggða­festu.“