Langar vinnuvikur og mikið áreiti er þekktur fylgifiskur þess að starfa á Wall Street. Í ítarlegri umfjöllun The Wall Street Journal er fjallað um lyfjanotkun bankastarfsmanna til þess að halda einbeitingu og koma sér í gegnum vinnuvikuna.
Í greininni er farið yfir hvernig ADHD-lyfja á borð við Adderall og Vyvanse eru orðin mjög algeng meðal margra starfsmanna fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum, einkum hjá nýliðum sem vinna langar vinnuvikur.
Viðskiptamiðillinn segir að viðtöl við yfir 50 núverandi og fyrrverandi bankastarfsmenn gefi sterklega til kynna að á skrifstofum fjármálafyrirtækja sé rætt opinskátt um notkun örvandi efna.
Lýsa Adderall sem mikilvægu tóli fyrir vinnuna
Rætt er við hinn 33 ára gamla Mark Moran, sem rekur í dag eigið almannatengslafélag, um reynslu hans sem nýliði hjá fjárfestingarbanka á Wall Street þar sem hann vann upp undir 90 klukkutíma vinnuvikur. Hann segist hafa fengið ráð hjá fyrrum kollega um að fara á næstu heilsugæslustöð og segja starfsfólki að hann ætti í erfiðleikum að einbeita sér.
Þar hafi hann fyllt út fimm mínútna spurningalista og í kjölfarið fengið lyfjaávísun fyrir Adderall. Moran – sem segir að sálfræðingur í fjölskyldu sinni hafi talið hann ekki vera með ADHD - lýsir því hvernig einbeiting hans hafi aukist til muna eftir að hann byrjað að neyta Adderall. Hann hafi getað unnið tímunum saman og raunar fundist hversdagsleg verkefni í Excel eða PowerPoint orðið skyndilega áhugaverð.
„Þau gáfu mér lyfseðil og á nokkrum mánuðum var ég orðinn háður,“ er haft eftir Moran. „Maður verður háður þessu til að vinna eðlilega.“
Pilluglös út um allt
Starfsmaður í fyrirtækjaráðgjöf Ascend Capital í Washington, Trevor Lunsford, segist hafa notað Adderall í sjö ár og að lyfið sé afar mikilvægt tól fyrir hans líferni og starf. Hann tók dæmi um að einn mánuðinn hafi hann vikulega þurft að taka flug til Denver klukkan sex að morgni til að funda með viðskiptavinum bankans. Hann hafi yfirleitt setið um átta klukkutíma á stjórnendafundum og í kjölfarið farið í fjögurra klukkutíma kvöldverði með viðskiptavinum.
„Tveir dagar vikunnar voru oft 20-22 klukkutíma vinnudagar,“ er haft eftir Lunsford. „Ég hefði ekki getað ráðið við það, haldið einbeitingu og tekið snöggar ákvarðanir ef ég hefði ekki getað tekið Adderall.“
Annar viðmælandi WSJ – sem starfaði um tíma á fjárfestingarbankasviði Wells Fargo í San Francisco – segir frá því að kollegi sinn hafi reglulega fengið sér línu af pressaðri (e. crushed up) Adderall pillu í nös á skrifborði sínu á opnu svæði þar sem nýliðar sátu gjarnan og unnu saman. Enginn hafi kippt sér upp við það.
Enn annar fyrrverandi starfsmaður Guggenheim Partners á árunum 2017-2019 segir að það hafi verið pilluglös út um allt á skrifstofu félagsins í New York.
WSJ segir að aðrir noti nikótínpúða eða drekka orkudrykki í óhófi. Einn viðmælandi WSJ sem vann í Houston á árunum 2017-2019 lýsir því að kollegar sínar hafi átt það til að þamba blöndu, sem þeir kölluðu „Monstersbombs“, til að halda sér gangandi. Umræddur drykkur hafi innihaldið sterkt fimm klukkutíma orkuskot sem sett var út í glas af orkudrykknum Monster. Koffínið í drykknum jafngildi tæplega fimm kaffibollum í einu.
Óttast að notkun amfetamín þyki venjuleg
Adderall og Vyvanse, sem er yfirleitt ávísað sem ADHD-lyf, flokkast sem „Schedule II“ lyf, á pari við kókaín og ópíóðar vegna mikillar hættu á misnotkun lyfja. sem geti leitt til reiðikasta og hjartavandamála, að því er segir í umfjölluninni.
Samuel Glazer, geðlæknir í New York sem veitir m.a. ráðgjöf til háttsettra bankamanna á Wall Street, segir við WSJ að langtímaáhrif notkunar lyfja á borð við Adderall hafi ekki verið nægjanlega vel rannsökuð. Umrædd lyf geti oft leitt til annarrar hættulegri neyslu. Hann segir að einn viðskiptavinur hafi reynt að kaupa pillur frá eiturlyfjasala vegna þess að hann hafi klárað mánaðarlegan lyfseðill sinn.
Glazer segir að fjárhagslegir hvatar á Wall Street geti ýtt fólki út í lyfjanotkun til að bæta frammistöðu sína. Hann óttast að normalísering amfetamíns í vinnuumhverfinu muni leiða til þess að margir verði háðir ofangreindum lyfjum til lífstíðar.
„Margir af mínum sjúklingum hugsa um örvandi lyfja líkt og þeir hugsa um að taka fjölvítamín eða fæðubótaefni,“ segir Glazer. „Þetta er mun afslappaðra en hvernig umræðan var í kringum ópíóða fyrir 20 árum síðan.“
Annar geðlæknir sem rekur stofu í New York, segir að helmingur viðskiptavina hans starfi á Wall Street. Þeir leiti til hans þar sem þeir telji nær ómögulegt að sinna störfum sínum án aðstoðar.
Aukin umræða hefur skapast í fjármálageiranum vestanhafs um hvort starfsaðstæður fyrir unga bankastarfsmenn séu með þeim hætti að þeir neyðist til að taka á sig of mikið vinnuálag, meðal annars vegna andláts 35 ára gamals bankastarfsmanns hjá Bank of America í maí síðastliðnum.
Í umfjöllun WSJ eru tekin fleiri dæmisögur um lyfjanotkun bankastarfsmanna í Bandaríkjunum.