Ökumaður, sem lenti í umferðaróhappi á brúnni við Arnarnesveg sumarið 2020, þarf að þola að bætur úr kaskótryggingu og slysatryggingu ökumanns verði skertar um 2/3. Ástæðan eru lyf sem hann hafði tekið við ADHD og kvíða. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Slysið varð á Jónsmessu sumarið 2020 en maðurinn ók bifreiðinni þá á steyptan kant uppi á brúnni. Skemmdist bifreiðin töluvert og varð maðurinn fyrir meiðslum. Þegar lögreglu bar að garði var ökumaðurinn sljór og áttavilltur og gaf þær upplýsingar að hann væri með ADHD, sykursýki og kvíða og að hann hefði tekið Sobril, kvíðastillandi lyf, um morguninn.

Líkamssýni úr manninum reyndust ekki innihalda áfengi en í þeim mældist amfetamín og oxazepam en hið síðarnefnda er kvíðastillandi. Tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu í málinu sökum þess að maðurinn hefði verið undir áhrifum vímuefna við aksturinn.

Því vildi ökumaðurinn ekki una og fór með málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Hann hefði aðeins tekið inn uppáskrifaðan skammt í lækningaskyni, annars vegar lyfið Sobril og hins vegar Attentin. Hið síðarnefnda er amfetamínafleiða og útskýri það amfetamínið í þvaginu meðan hitt lyfið útskýri oxazepam-ið.

Týndi pakka en fann hann aftur

Við höfnun sína á bótaskyldu vísaði tryggingafélagið til þess að maðurinn hefði verið í samskiptum við heilsugæslu daginn fyrir slysið þar sem hann hefði vantað Attentin. Enn fremur byggði félagið á því að ökumaðurinn hefði verið ákærður fyrir fíkniakstur vegna slyssins.

Þá benti félagið á að samkvæmt lögregluskýrslu hefði ökumaðurinn aðeins nefnt Sobril til sögunnar en ekki Attentin og útskýringar hans á amfetamínmagningu ótrúverðugar að mati þess. Maðurinn hafði gefið þá skýringu að hann hefði týnt pakkningu lyfsins og því verið í samskiptum við heilsugæslu. Í millitíðinni hefði hann hins vegar fundið hina týndu pakkningu og því getað innbyrt það.

Í niðurstöðu nefndarinnar voru helstu aukaverkanir lyfjanna raktar og á það bent að Attentin væri almennt aðeins gefið börnum en ekki fullorðnum. Ótvírætt var talið að lyfin gætu haft áhrif á getu ökumanns til aksturs. Samkvæmt lögregluskýrslu hefði ástand mannsins verið annarlegt á slysstað, jafnvægi óstöðugt og framburður og málfar óskýrt.

„Hvort sem það ástand verður rakið til neyslu fíkniefna eða áhrifa af áðurnefndum lyfjum verður að telja, með hliðsjón af þessari lýsingu og upphaflegum viðbrögðum [ökumannsins] við krfu lögreglu um að veita blóðsýni, að [honum] hafi verið óheimilt að stjórna ökutæki umrætt sinn,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Því til viðbótar benti nefndin á að af ljósmyndum á vettvangi mætti ráða að bifreiðinni hefði verið ógætilega og á mikilli ferð, með mjög slitna framhjólbarða, svo jafna megi til stórkostlegs gáleysis. Með hliðsjón var því var það mat nefndarinnar að ökumaðurinn ætti rétt á bótum úr bæði kaskótryggingu og slysatryggingu ökumanns en að skerða bæri bætur hans um tvo þriðju.