Þýski íþróttavörurisinn Adidas á í viðræðum við Norðmanninn Bjørn Gulden, fráfarandi forstjóra Puma, um stöðu forstjóra en Daninn Kasper Rørsted tilkynnti nýlega að hann myndi hætta sem forstjóri Adidas.

Hlutabréf Adidas hafa hækkað um meira en 20% í dag en gengi Puma hefur fallið um hálft prósent.

Puma hafði fyrr í dag tilkynnt að Gulden hygðist ekki endurnýja samning sinn og yfirgefur því fyrirtækið um næstu áramót eftir níu ár sem forstjóri. Arne Freundt, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, tekur við sem forstjóri Puma í byrjun næsta árs.

Í umfjöllun Financial Times segir að Gulden, sem er fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, hafi starfað við góðan orðstír á tíma sínum hjá Puma. Hann er talinn eiga heiðurinn af jákvæðum viðsnúningi á rekstri Puma sem gekk illa þegar hann gekk til liðs við fyrirtækið árið 2013.

Gulden tekur nú við þrefalt stærra fyrirtæki og ljóst er að hann muni eiga á brattann að sækja. Adidas hefur sent frá sér þrjár neikvæðar afkomuviðaranir frá því í júlí. Þá sleit íþróttarisinn samstarfi sínu við Kanye West á dögunum sem er talið að muni leiða til þess að hagnaður félagsins verði 250 milljónum evra lægri en ella, eða sem nemur 36 milljörðum króna.

Bjørn Gulden er fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu.
© epa (epa)