Íþróttavörurisinn Adidas laut í lægra haldi í dómsmáli sem félagið höfðaði gegn lúxusfatamerkinu Thom Browne. Adidas höfðaði málið þar sem íþróttarisanum þótti fatalína á vegum Thom Browne, sem einkennist af fjórum röndum sem ýmist voru staðsettar á ermi eða skálm fatanna, vera of lík einkennismerki Adidas sem eins og þekkt er eru þrjár rendur.
Forsvarsmenn Thom Browne voru þessu ósammála og bentu m.a. á að neytendur myndu ólíklega rugla þessum tveimur vörumerkjum saman, þar sem einkennismerki umræddrar fatalínu væru fjórar rendur en ekki þrjár eins og hjá Adidas.
Í málinu krafðist Adidas rúmlega 7,8 milljóna dala í skaðabætur frá Thom Browne. Eins og fyrr segir þurfti félagið þó á lúta í lægra haldi þar sem dómstóllinn í New York tók varnir Thom Browne til greina.