Feðgarnir sem hjálpuðu Carlos Ghosn, fyrrum framkvæmdastjóra Nissan, að flýja Japan hafa verið dæmdir í um tveggja ára fangelsi í Japan. BBC greinir frá.
Faðirinn og fyrrum sérsveitarmaðurinn Michael Taylor var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir aðild sína að flóttanum en Peter í 20 mánaða fangelsi. Þeir voru framseldir til Japans frá Bandaríkjunum í mars á þessu ári.
Feðgarnir hjálpuðu Ghosn að sleppa úr stofufangelsi í Japan síðla árs 2019. Ghosn var smyglað í hljóðfærakassa um borð í einkaflugvél frá Japan til Líbanon en Ghosn er með líbanskt ríkisfang. Í staðinn fengu þeir greitt um 1,3 milljónir dollara, eða 161 milljón króna, fyrir.
Sjá einnig: Sagður hafa flúið í hljóðfærakassa
Interpol hefur gefið út alþjóðlega handtökuskipan á hendur Ghosn en engir framsalssamningar eru á milli Líbanon og Japan og gengur hann því laus. Ghosn var fyrst handtekinn fyrir skattaundanskot í Japan árið 2018.