Campari Group, félagið sem framleiðir m.a. ítalska appelsínulíkjörinn Aperol Apertivo, rær nú öllum árum í þá átt að „af-árstíðavæða“ (e. deseasonalize) Aperol líkjörinn.

Campari Group, félagið sem framleiðir m.a. ítalska appelsínulíkjörinn Aperol Apertivo, rær nú öllum árum í þá átt að „af-árstíðavæða“ (e. deseasonalize) Aperol líkjörinn.

Kokteillinn Aperol Spritz, sem er blanda af Aperol, prosecco léttvíni og kolsýrðu vatni, hefur um nokkurt skeið verið hvað algengasta drykkjarval fólks í sól og sumaryl. Campari Group trúir þó því að Aperol henti við mun fleiri tilefni og vill auka útbreiðslu kokteilsins enn frekar.

Félagið hefur m.a. í hyggju að gera Aperol áberandi á skíðasvæðum í Ölpunum með tónleikahaldi og að leggja aukið fé í markaðsstarf á börum á skíðasvæðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá mun Aperol áfram vera einn af samstarfsaðilum Coachella tónlistarhátíðarinnar í Kaliforníu.

Sala á Aperol hefur aukist á hverju ári frá því að Campari Group festi kaup á vörumerkinu árið 2003. Salan í fyrra jókst um 23% frá árinu á undan og nam um 700 milljónum evra. Aftur á móti hægðist á sölunni í sumar og eru fyrrgreind áform til að bregðast við þeirri þróun.