Icelandair stefnir að því að byggja upp miðstöð fyrir fraktflug á Keflavíkurflugvelli sambærilega þeirri sem félagið hefur starfrækt í farþegaflugi um áratugaskeið. Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair Group á uppgjörsfundi félagsins í morgun.

Í uppgjöri félagsins er bent á að Icelandair hafi bætt við Boeing 767- 300 breiðþotu í flugflota sinn í desember ætlaða undir fraktflutninga. Önnur slík breiðþota bætist við í flugflota Icelandair í apríl. Þá hyggst félagið stækka vöruhús sitt á Keflavíkurflugvelli til að mæta auknum umsvifum í fraktflutningum.

Leggja á áherslu á að nýta breiðþoturnar í fraktflugi til Liege í Belgíu, Los Angeles, New York og Chicago í Bandaríkjunum.

Bogi sagði að með rými í farþegaflugvélum sem nýtt væri undir frakt væri Icelandair með afar sterkt leiðakerfi fyrir fraktflutninga. Þar væru því tækifæri til arðbærs vaxtar.