Stjórn tónlistarvefsins Gogoyoko ætlar að óska eftir því að lögregla rannsaki hvort fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins hafi gerst sekir um þjófnað og brotið lög um viðskiptahætti, samkvæmt RÚV. Öllum starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp um síðustu mánaðamót og voru stofnendur tónlistarvefsins ráðnir aftur til starfa. Haukur Davíð Magnússon, sem stofnaði fyrirtækið við annan mann árið 2007, tók þá við sem framkvæmdastjóri.
Í fréttum RÚV í kvöld kom m.a. fram að einhver sem tengist félaginu hafi nýtt sér upplýsingar sem teljist til atvinnuleyndarmála, eignir voru horfnar af skrifstofu Gogoyoko auk þess sem viðskiptavinum hafi verið sagt að fyrirtækið sé að hætta starfsemi. Þá hafði verið slökkt á búnaði fyrirtækisins sem leigður er viðskiptavinum.
RÚV sagði stjórnarformann hafa óskað eftir lögreglurannsókn, þeir sem gerst hafi brotlegir verði kærðir og viðeigandi bótakrafa gerð á hendur þeim.