Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Lone Star Funds stefnir að því að skila 3,5 milljörðum Bandaríkjadala, rúmlega 450 milljörðum íslenskra króna, til fjárfesta á næstu vikum.
Samkvæmt heimildum Bloomberg kemur stærsti hluti arðgreiðslunnar úr sölu á sérhæfða efnaverksmiðjufyrirtækinu AOC til japanska félagsins Nippon Paint Holdings í mars síðastliðnum.
Söluverðið nam 4,35 milljörðum dala og þar af runnu um 1,8 milljarðar í reiðufé til Lone Star. Að sögn heimildarmanna þrefaldaði sjóðurinn fjárfestingu sína í AOC.
Ávöxtun af Novo Banco eykur útgreiðslur
Fjárfesting Lone Star í portúgalska bankanum Novo Banco er einnig að skila árangri. Sjóðurinn á von á 1,1 milljarði dala í arðgreiðslu á næstu vikum.
Þá er einnig til skoðunar að skrá bankann á markað en að sögn forstjóra hans, Mark Bourke, er útboðslýsing langt komin. Skráning gæti farið fram strax í júní.
Eftirstandandi hluti endurgreiðslunnar kemur úr öðrum fjárfestingum, meðal annars í Titan Acquisition Holdings, fyrirtæki sem sérhæfir sig í viðgerðum á skipum og flóknum verkframkvæmdum.
Lone Star keypti félagið árið 2023 af Carlyle Group og Stellex Capital. Einnig leggur GTT Communications, sem kom úr gjaldþrotameðferð fyrir tveimur árum, sitt af mörkum til greiðslunnar.
Donald Quintin, forstjóri Lone Star, segir í samtali við Bloomberg að fjárfestingarstefna sjóðsins byggi á því að fjárfesta í fyrirtækjum með sterkt sjóðstreymi og raunverulegt rekstrarlegt virði, þar sem möguleikar eru á virðisaukningu í gegnum hagræðingu, endurskipulagningu og samruna.
„Ólgan á mörkuðum undanfarið staðfestir í raun mikilvægi þessarar nálgunar, þar sem áhersla er lögð á grunnstoðir fyrirtækjareksturs,“ segir Quintin, sem tók við sem forstjóri í fyrra.