Vöxtur reiðhjólafyrirtækisins Lauf Cycles hefur verið ævintýralegur undanfarin ár. Veltan hefur tífaldast frá árinu 2018 en hún var yfir einum og hálfum milljarði króna árið 2024. Félagið var stofnað árið 2011 en fyrstu árin einkenndust af vöruþróun og fór Lauf gaffallinn fyrst á markað árið 2014. Benedikt Skúlason, forstjóri og annar stofnanda Lauf, segir að það hafi tekið nokkurn tíma að finna réttu notkunina fyrir hann en þegar hin svokölluðu malarhjól komu til sögunnar reyndist þeirra vara smellpassa.
„Við gerðum fyrsta malargaffalinn 2016, sem þróaðist síðan yfir í fyrsta malarhjólið okkar 2017, True Grit. Svo tók við rosalegt vaxtarskeið hjá okkur með hjólið sem gíraðist upp árið 2020 þegar við fórum að selja beint til viðskiptavina,“ segir Benedikt en í heimsfaraldrinum hafi eftirspurn eftir hjólum og öðrum útivistavörum sömuleiðis margfaldast.
„Meira að segja síðustu þrjú ár þar sem allt hefur verið í dauðafrosti í hjólabransanum, botnfrosið alls staðar eftir Covid og fyrirtæki að fara á hausinn vinstri hægri, þá höfum við verið að vaxa. Vöxturinn milli ára var um 20% á síðasta ári, á meðan maður hefur séð tölur um 30-40% samdrátt hjá samkeppnisaðilum,“ segir hann enn fremur.
Vöxtur félagsins á næstu árum verði í kringum nýjustu viðbótina, fjallahjólið Elju, en eins og staðan er í dag er stefnan sett á að ná um 100 milljóna dala veltu, þar sem fókusinn er á Bandaríkjamarkað.
„Það eru fordæmi fyrir slíkri stærð hjá ýmsum tiltölulega þröngt fókuseruðum „high-end“ hjólamerkjum. Það er stærðin sem við viljum keyra hratt og örugglega á, þetta er eitthvað í kringum tíföldun sem við viljum ná í þessari atrennu. Ég man að ég sagði fyrir einhverjum 5-6 árum að við ætluðum að tífaldast þá, sem fólki fannst pínu galið, en það er komið núna. Þannig að nú er næsta tíföldun fram undan,“ segir Benedikt.
„Við höfum staðið storminn af okkur og náð á sama tíma að vaxa umtalsvert og þróa nýjar vörur. Nú þegar markaðurinn er loksins að taka við sér á ný og nýju hjólin okkar eru að detta í sölu, þá ætlum við að keyra þétt á það tækifæri. Við ætlum að taka inn u.þ.b. milljarð í nýtt hlutafé. Nota bene, ekki til þess að brenna. Við sjáum fram á rekstrarafgang á árinu. Þetta hraður vöxtur kallar einfaldlega á auknar birgðir sem ekki er hægt að fjármagna með rekstrarfé.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.