Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóra stefnumótunar hjá Nox Medical. Félagið hefur rúmlega þrefaldað sölu sína í Bandaríkjunum á þremur árum, eða frá því að félagið hóf sjálft að sjá um dreifningu á vörum sínum þar. Tekjur félagsins í Bandaríkjunum voru um 4 milljónir dala árið 2019 en voru komnar upp í tæpar 15 milljónir dala í fyrra.
Hann segir markmið félagsins um tvöföldun tekna, sem sett var í lok árs 2019, hafa verið mjög metnaðarfullt og því hafi rúm þreföldun tekna á Bandaríkjamarkaði komið skemmtilega á óvart. „Okkur tókst að koma starfseminni í Bandaríkjunum hratt af stað. Það má segja að við höfum tekið við boltanum á hreyfingu og byrjað að hlaupa enn hraðar en við náðum að gera í gegnum dreifingaraðila. Þessi ákvörðun var fljót að skila sér. Við erum sérlega stolt af þessum árangri, því eins og sagan sýnir hafa því miður mörg íslensk fyrirtæki ekki komið vel út úr tilraunum við að hasla sér völl í Bandaríkjunum. Þetta er mjög erfiður markaður til að komast inn á og festa sig í sessi á.“
Ingvar segir ofangreindar breytingar einnig skila sér í því að Nox Medical sé nú í betri stöðu en áður til að halda áfram að þróa og þroska viðskiptamódelið vestanhafs. „Við stefnum á mun meiri vöxt á Bandaríkjamarkaði. Samkvæmt markaðsgreiningum okkar erum við, þrátt fyrir að hafa þrefaldað sölu í Bandaríkjunum, með um 8-10% markaðshlutdeild þar og því eru mikil tækifæri til frekari vaxtar. Eftirspurnin eftir vörum okkar er mikil, við erum með mikla aðgreiningu á markaði í formi þeirra lausna sem við bjóðum upp á og stærstu samkeppnisaðilar okkar eru í mótvindi þessi misserin. Sökum þessa sjáum við fram á að geta tvöfaldað markaðshlutdeild okkar í Bandaríkjunum á tiltölulega skömmum tíma. Okkur finnst vörurnar okkar, og fólkið sem á þeim þarf að halda, verðskulda meira en 8-10% markaðshlutdeild.“
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudag.