Ríkisstjórnin hefur lagt fram frum­varp um breytingar á lögum um Jöfnunar­sjóð sveitarfélaganna í samráðs­gátt stjórn­valda.

Frum­varpið hefur það að mark­miði að stuðla að „rétt­látari út­hlutun“ en mun í reynd refsa sveitarfélögum sem eru ekki með skatt­stofna sína í botni.

„Ef sveitarfélag fullnýtir ekki heimild sína til álagningar útsvars skal lækka fram­lög Jöfnunar­sjóðs, svo sem getið er í 5. mgr., árið eftir til viðkomandi sveitarfélags að fjár­hæð sem nemur mis­mun á há­marks­álagningu útsvars og álagningu sveitarfélagsins á yfir­standandi ári,” segir í frum­varps­drögum í samráðs­gátt stjórn­valda.

Í frum­varpinu kemur fram að þau sveitarfélög sem „fullnýta ekki heimild sína til álagningar útsvars“ megi vænta lækkunar á al­mennu jöfnunar­fram­lagi, fyrst og síðan jöfnunar­fram­lags vegna reksturs grunnskóla.

Þar á eftir lækka fram­lög vegna sérþarfa fatlaðra nem­enda og síðan fram­lög vegna nem­enda með ís­lensku sem annað tungumál.

Frek­lega brotið á sjálfsákvörðunarrétti

Ás­dís Kristjáns­dóttir, bæjar­stjóri Kópa­vogs­bæjar, segir frum­varpið ganga frek­lega á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga en full­trúar sveitarfélaganna fengu kynningu á frum­varpinu í morgun.

„Ef þetta frumvarp verður að veruleika þá er verið að ganga á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og verið að beita sveitarfélögin miklum yfirgangi. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga er stjórnarskrárvarið og verið er að leggja til einhvers konar ríkisleið í útsvarsprósentunni,“ segir Ásdís.

„Við blasir að hér er verið að þvinga í gegn pólitíska einstefnu þess efnis að sveitarfélög eigi að hækka útsvar bæjarbúa í botn. Það sjá allir í hendi sér að hér er verið að skapa ranga hvata og koma í veg fyrir að sveitarfélög geti skilað ávinningi af góðum rekstri til bæjarbúa.“

Fjar­lægja hvata til að skila góðum rekstri

Ásdís segir jafnframt að með þessu sé verið að grafa undan frelsi sveitarfélaga til að skila góðum rekstri í formi lægri skatta til íbúa.

„Sveitarfélög eru vissulega misvel rekin. Við hjá Kópavogsbæ höfum til dæmis lagt áherslu á að hagræða í rekstri og skila góðum rekstri til okkar íbúa í formi lægri skatta. Ef þetta frumvarp verður að veruleika er verið að koma í veg fyrir þennan hvata. Það er verið að beina því til sveitarfélaga að fullnýta útsvarsprósentuna. Þetta er að mínu mati hápólitískt mál,“ segir Ásdís.

Frumvarpið sniðið að þörfum borgarinnar

Ásdís segir það nokkuð ljóst að frumvarpið sé sniðið að Reykjavíkurborg annars vegar og hins vegar minni sveitarfélögum úti á landi.

Í 5. gr. frumvarpsins er að finna svokallað höfuðstaðarálag, sem úthlutað skal til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, og skal nema allt að 2,5% af tekjum sjóðsins. Álagið er lagt til vegna „sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaganna.“

„Ég set einnig verulegt spurningarmerki við þetta svokallaða höfuðstaðarálag sem er háð fyrst og fremst huglægum þáttum. Þetta er metið álag út frá félagslegum þáttum og svo sé ég ekki betur en að þar geti einnig verið um að ræða framlög til menningarmála til þeirra sveitarfélaga sem falla þarna undir, þannig við og önnur sveitarfélög eigum að fara niðurgreiða menningarstarfsemi í Reykjavík svo dæmi séu tekin.“

„Kópavogsbær rekur menningarstofnanir í bænum. Við erum að reka Salinn og Gerðasafn sem dæmi, en væru þessar menningarstofnanir í Reykjavík myndu þær njóta fjárstuðnings úr jöfnunarsjóði. Það sjá vonandi flestir hversu skakkt þetta er.“ segir Ásdís

Á fundinum með fulltrúum sveitarfélaganna í morgun var það gagnrýnt að ríkisstjórnin stefndi að því að koma frumvarpinu í gegn á vorþingi en Ásdís segir ljóst að frumvarpið þarfnist frekari umræðu.

„Stjórnvöld þurfa að svara því hvort þau telji eðlilegt að ganga með þessum hætti á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.“

Ásdís segir að Kópavogsbær muni mótmæla frumvarpinu harðlega og leggja fram umsögn um málið í samráðsgátt.

„Ég vænti þess að fleiri aðilar muni gera það. Þó að við styðjum endurskoðun á reglum um Jöfnunarsjóð til að gera kerfið gagnsærra en nú er, þá gerum við alvarlegar athugasemdir við frumvarpið í þessari mynd. Okkur hugnast ekki að fara þessa leið, við viljum halda áfram að skila góðum rekstri til bæjarbúa. Þetta er pólitísk einstefna sem snýst um að þvinga sveitarfélög í að hækka útsvarið í botn og bæjarbúar greiða brúsann.“