Um aldamótin var Yahoo konungur internetsins með markaðsvirði yfir 125 milljarða dollara á hápunkti netbólunnar árið 2000.

Í dag er tíðin aftur á móti önnur og í dag kjósa langflestir neytendur leitarvél Google. Yahoo og AOL voru saman metin á um 5 milljarða dollara árið 2021, þegar fjármálafyrirtækið Apollo Global Management keypti þau af Verizon Communications.

Yahoo dregur þó enn til sín mikla netumferð en í febrúar sl. fékk vefsíðan 3 milljarða heimsókna á heimsvísu samkvæmt gögnum frá Similarweb, fyrirtækis sem sérhæfir sig í stafrænum markaðsgreiningum. Það er svipað og Amazon.com, sem fékk 2,3 milljarða heimsókna, en langt á eftir Google, sem fékk 76 milljarða.

Josh Line, sem nýlega gegndi stöðu yfirvörumerkjastjóra hjá Paramount Global, hóf störf í síðustu viku sem markaðsstjóri Yahoo. Hlutverk hans er að koma merkinu aftur inn í vitund neytenda og auglýsenda.

Yahoo vörumerkið er enn víðþekkt og margir nota enn vörur þess eins og Yahoo Sports og Yahoo Finance daglega, jafnvel þótt þeir geri sér ekki alltaf grein fyrir því, benti Line á í viðtali við Wall Street Journal.

„Stór hluti af áskorun markaðssetningarinnar er að endurvekja þessa ást og koma merkinu aftur inn í menninguna,“ sagði Line.