Hið vinsæla ættfræðifyrirtæki 23andMe hefur sótt um gjaldþrotavernd og hefur samhliða því tilkynnt að Anne Wojcicki, forstjóri og annar stofnandi fyrirtækisins, hafi sagt upp störfum.

Ríkissaksóknari í Kaliforníu gaf út neytendaviðvörun fyrir helgi þar sem viðskiptavinum var ráðlagt að eyða gögnum sínum af síðunni í ljósi fjárhagsvandræða fyrirtækisins.

23andMe segir að það muni halda áfram starfsemi sinni í gegnum ferlið og að engar breytingar verði gerðar á því hvernig fyrirtækið geymir, stjórnar eða verndar gögn viðskiptavina.

Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2006 og var skráð á markað 2021, var eitt sinn gríðarlega vinsælt meðal einstaklinga sem vildu rekja erfðaslóð sína. Verðmæti þess á einum tíma nam sex milljörðum dala en það hefur hins vegar aldrei skilað hagnaði.

Í nóvember í fyrra neyddist fyrirtækið til að segja upp 40% af vinnuafli sínu og hafði gengi þess þá lækkað um meira en 70% árið 2024.