Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims segir að öll gögn í tengslum við athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja séu klár. „Við höfum ekkert að fela og það er allt uppi á borðum.“

Hann segir það hins vegar óásættanlegt að matvælaráðherra sé að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem hafi rannsóknarheimildir, til að vinna fyrir sig á sama tíma og ráðherra geti stýrt rannsókninni.

„Þetta er bara prinsippmál,“ segir Guðmundur en Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að beita Brim dagsektum að fjárhæð 3,5 milljónum króna á dag fyrir að neita að afhenda gögnin.

Í verktakasamningi matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins segir beinum orðum að ráðuneytið hafi rétt til að stöðva millifærslur eða fresta þeim telji það framkvæmd verkefnisins ekki í samræmi við samninginn við ráðuneytið.

Samkeppniseftirlitinu er jafnframt skylt að greina ráðuneytinu frá stöðu verkefnisins reglulega.

„Þetta getur ekki staðist“

Guðmundur segir að með þessu geti ráðuneytið stýrt rannsókninni eftir hvern samráðsfund. „Segjum að það sé ekki verið að rannsaka Vísi eða Morgunblaðið nægilega vel þá segja þeir [ráðuneytið] bara: Þú verður að fara þarna og gera þetta betur,“ segir Guðmundur.

„Þetta getur ekki staðist,“ bætir hann við.

Guðmundur segir Brim hafa kvartað til Umboðsmanns Alþingis fyrir mörgum vikum.

„Hann neitaði að taka þetta fyrir því af því að stjórn Samkeppniseftirlitsins var ekki búin að samþykkja þetta. Þess vegna urðum við að fara þessa leið.“

„Við sendum bréf á stjórn Samkeppniseftirlitsins og spyrjum hvort þau séu samþykk þessu,“ segir Guðmundur. Svarbréf hafi borist fyrst í gær og það sé alveg dæmigert. „Þegar allir eru að fara í sumarfrí, þannig við þurfum að vinna allt sumarfríið meðan þeir eru að leika sér.“

Stjórn Brims til í slaginn

Að mati Guðmundar hefðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) átt að vera í þessari baráttu fremur en Brim.

„En SFS neitaði því það þorir enginn að anda á Samkeppniseftirlitið í samfélaginu.“

Guðmundur bar málið undir stjórn Brims fyrir nokkrum vikum og segir stjórnina tilbúna í slaginn. „Þau voru alveg hörð á því að þetta yrði að vera prinsipp í okkar samfélagi. Þess vegna erum við að þessu. Við höfum ekkert að fela og það er allt upp á borðum.“

Eignarhaldið auðfundið

Guðmundur bendir á að ríkisskattstjóri, Fjármálaeftirlitið, Fiskistofa og Samkeppniseftirlitið geti kallað eftir öllum þessum gögnum. „Þeir verða bara að gera það með réttum hætti.“

Öll gögnin í gagnabeiðninni séu einnig aðgengileg og auðfundin.

„Eignarhald í sjávarútvegi er algjörlega á hreinu. Þú ferð inn í RSK og þar eru allir endanlegir eigendur á öllum fyrirtækjum á Íslandi. Skatturinn veit nákvæmlega alla eigendur á öllum fyrirtækjum,“ segir Guðmundur.

„Einn ættfræðingur og excel-fræðingur gætu gert þetta á einni viku og sagt þér nákvæmlega hverjir eiga öll sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Kvótinn er allur skráður á fiskiskip og fiskiskip eru skráð á eigendur hjá Siglingastofnun.“

„Þetta er bara prinsipp mál“

Guðmundur segir tímabært að einhver veiti opinberum stofnunum aðhald og spyrji hvort það sé leyfilegt að ráðherra rannsaki borgara og fyrirtæki með þessum hætti.

„Þetta er bara prinsipp mál,“ segir Guðmundur.

„Að framkvæmdavaldið segi: Heyrðu ég hef ekki heimild til að rannsaka þessa menn þannig ég fæ bara annað stjórnvald til þess og nota sömu skattpeningana til að borga þeim og „þeir fara í þessa hópa,“ segir Guðmundur.

„Eins og kerfið hefur virkað þá munu þau reyna að grilla mig á næstu mánuðum til að sýna að það megi enginn fara í kerfið. En stundum hrynja þau,“ segir Guðmundur.

„Þessi samningur getur ekki staðist. Það er ekki fræðilegur möguleiki,“ segir Guðmundur að lokum.